Á síðasta ári fékk Húnaþing vestra styrk úr styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótar Íslands til að setja upp myndavænt auðkenni fyrir sveitarfélagið. Markmið verkefnisins er fegrun umhverfisins en um leið að stuðla að því að gestir taki myndir sem deilt er á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á svæðinu.
Vegglistamaðurinn Juan var fenginn til að hanna listaverk á hafnarvogarhúsið í samvinnu við sveitarfélagið. Hann hefur nú lokið við verkið sem unnið var bæði með málningu og spreybrúsum. Við hönnun verksins var leitast við að endurspegla samfélagið með vísan í fjölbreyttan hóp íbúa, landbúnaðinn sem einkennir svæðið og náttúruna.
Juan hefur myndskreytt veggi víða um land og má sjá verk hans á instagram undir heitinu juanpicturesart.
Hér má sjá nokkrar myndir af mismunandi stigum vinnu listamannsins:
Myndir/Húnaþing vestra