Allt frá því að ég var gutti þá hef ég vitað að það er jarðsig á Siglufjarðarvegi milli Ketiláss og Strákagangna. Það var ekkert erfitt að sjá það, á Almenningum rétt við Skriðurnar var vegurinn alltaf að síga og oft var það ansi mikið. Á öðrum stöðum á man ég ekki svo mikið eftir jarðsigi en vegurinn sem malarvegur lagaði sig betur að jarðsigum sem voru greinilega mjög víða, en það átti eftir að breytast.

Og hver var breytingin? Jú vegurinn var malbikaður. Mig rámar í að haldinn hafi verið fundur með alþingismönnum á Hótel Höfn og þar var mikið rætt um að hvorki veður né jarðsig myndi lagast við það að fá malbik á veginn. Þessir 25 km frá Ketilási til Siglufjarðar voru trekk í trekk ófærir yfir veturinn og eru enn.

En það var ekki hlustað á heimamenn og þá sem þekktu aðstæður vel, ónei það skyldi farið í að laga veginn og einnig Strákagöng og við Siglfirðingar ættum bara að vera þakklátir fyrir það.

Strákagöng eru mjög gömul göng og það var farið í það að snurfusa þau svo þau liti betur út, stórum fjármunum eitt í það. Og malbikið kom á veginn og nú átti Siglufjarðarvegur að vera tip top. 

Mjög fljótlega eftir að malbikið kom á fór að bera á jarðsigi hér og þar um veginn og stór hættuleg skörð fóru að myndast í malbikið þegar það kubbaðist í sundur og skildi eftir hættulegar brúnir í malbikið.  Jarðsigið á Almenningum var alltaf á sínum stað og seig niður hægt og örugglega en þarna fór að bera á jarðsigi víða um veginn sem var kannski ekki svo áberandi á meðan vegurinn var malarvegur, enda er það nú að það eru langir malarkaflar í veginum þar sem það þýðir ekkert að malbika yfir jarðsig. Og í öll þessi sig á veginum er stanslaust verið að keyra efni í til að laga og jafna veginn, hvert bílhlassið á fætur öðru. Hver skyldi kostnaðurinn við vera, maður spyr sig.

Við Strákagöng er mikið skarð sem nær mjög nærri veginum og hvort sem menn telja að þar gæti vegurinn hreinlega horfið í sjó fram eða ekki þá líta myndir af þessu alls ekki vel út.

Og hver er staðan í dag? Jú það er búið að lappa uppá göng sem löngu eru komin á tíma, það er stanslaust borið efni ofan í veginn og svo er hann ófær oft á ári vegna snjóa og snjóflóðahættu.

Þá kemur að máli málanna, peningum. Og almennt telur fólk of dýrt að henda í ný göng fyrir þetta freka fólk sem er nýbúið að fá þessi fínu fínu göng sem kennd eru við Héðinsfjörð. Það skal sko ekki eyða meiri pening í þetta krummaskuð! En á meðan er verið að ausa stanslaust pening í að laga, moka og halda við ónýtum vegi og úr sér gengnum göngum.

Það væri gaman að vita hve miklu fjármagni er búið að eyða í þennan 25 km kafla á Siglufjarðarvegi frá því að það var ákveðið að laga Strákagöng til og malbika veginn. Kannski bara svipað og ef hefði verið farið strax í að gera ný göng … kannski.

Á meðan fólk talar um að það sé bara vitleysa að eyða meiri pening í vegi og göng í kringum Fjallabyggð og aðrir séu framar í röðinni sem er örugglega rétt að þá er málið þetta, það er stanslaust verið að sturta peningum í Siglufjarðarveg og hefur verið gert í áratugi, stanslaust! 

 Og ef litið er framhjá þessum peningaaustri og horft til öryggis vegarins þá myndu nú flestir samþykkja að Siglufjarðarvegur er mjög ótraustur og hættulegur vegur. 

Mynd/Halldór Gunnar Hálfdansson