Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2022 og hafa niðurstöðurnar verið kynntar Umhverfisstofnun með bréfi. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 26 þúsund fuglar.
Í aðalatriðum sýndu talningar síðastliðið vor fjölgun rjúpna á nær öllum talningarsvæðum 2021–2022. Staða stofnsins fer að nokkru eftir því við hvaða tímabil og hvaða landsvæði er miðað en til lengri tíma litið hefur rjúpnastofninum hnignað. Sé viðmiðið síðustu 20 ár eða svo þá er stofninn yfir meðallagi að stærð en undir meðallagi samanborið við síðustu 60 ár.
Viðkoma rjúpunnar var mæld í tveimur landshlutum 2022. Viðkomubrestur var á Norðausturlandi og léleg viðkoma á Vesturlandi. Slæmt tíðarfar um vorið og sumarið er líklegasta skýringin. Afföll á 2022 árganginum á Norðausturlandi eru þegar orðin það mikil í lok sumars að óvíst er hvort að sú uppsveifla í stofnstærð sem hófst í 2021–2022 haldi áfram. Almennt hefur afkoma unga versnað frá síðustu aldamótum samanborið við áratugina á undan.
Á samráðsfundi fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar, sem haldinn var 29. ágúst, var enginn ágreiningur um ástand rjúpnastofnsins 2022 og árangur veiðistjórnunar frá árinu 2005 til 2021.
Veiðistofns rjúpunnar er metinn 297 þúsund fuglar haustið 2022 og ráðlögð veiði er um 26 þúsund fuglar eða um sex fuglar á veiðimann. Stærð veiðistofns rjúpu haustið 2022 er á pari við fjögur lélegustu árin frá upphafi mælinga 1995. Rjúpan er lykiltegund í fæðuvefnum og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka. Hún er á Válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Í ljósi þessa alls leggur Náttúrufræðistofnun mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og afli verði ekki umfram um 9% af veiðistofni.
Greinargerð um veiðiþol rjúpnastofnsins 2022
Bréf forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til Umhverfisstofnunar
Forsíðumynd/ Rjúpnapar, ungur karri og fullorðinn kvenfugl, Vatnsleysuströnd, 11. apríl 2022. – Ljósm. Ólafur K. Nielsen