Barnaþingi lauk í gær sem er hið fyrsta sinnar tegundar sem haldið er hér á landi.

Ákveðið var á síðasta löggjafarþingi að breyta lögum um Umboðsmann barna þannig að barnaþing verði haldið annað hvert ár. Skal þingið fjalla um málefni barna og niðurstöður þess afhentar ríkisstjórn Íslands. Markmið barnaþings er að efla og virkja börn til lýðræðislegrar þátttöku og veita sjónarmiðum þeirra brautargengi.

Þingstörf barnaþings fóru fram í gær og voru niðurstöður þingsins afhentar ríkisstjórn í þinglok. Þær munu svo hafa bein áhrif á aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi hjá félags- og barnamálaráðherra um aukna þátttöku barna í stefnumótun í kjölfar samþykktar ríkisstjórnar frá því í mars á þessu ári.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, fluttu ávörp við setningu þingsins. Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sýndu myndir af sér frá barnsaldri, tóku þátt í umræðu á sviði og svöruðu því meðal annars hvort þau hafi dreymt um að hafa áhrif sem börn.

Í lok barnaþings tóku Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við niðurstöðum þingsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Aukin áhrif barna og ungmenna á samfélagið hafa lengi verið mér hugleikin en barnaþing markar tímamót í því verkefni. Samfélag þar sem börn og ungmenni hafa sterka rödd og geta talað skýrt og milliliðalaust við ráðamenn verður betra samfélag fyrir okkur öll, ekki bara börn og ungmenni. Börn og ungmenni hafa oft aðra sýn á samfélagið en eldri kynslóðir og forgangsraða öðruvísi.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ég er nýkominn heim frá fögnuði vegna þrjátíu ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í höfuðstöðvum þeirra í New York. Ein stærsta áskorunin sem þar var til umfjöllunar snýr að því hvernig hægt sé að auka þátttöku barna í ákvarðanatöku stjórnvalda. Þjóðir heims eru mislangt á veg komnar í þeim efnum. Það er því virkilega ánægjulegt að við Íslendingar séum þar í fararbroddi og búin að stíga heillaskref til að efla raunverulega lýðræðisþátttöku barna og ungmenna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: „Börn eru fær til að hafa áhrif á líf sitt og ef þeim eru gefin tækifæri til að láta rödd sína heyrast hafa börnin margt fram að færa um eigin aðstæður sem vert er að taka tillit til. Börn og ungmenni er virkir þátttakendur í samgöngum ekki síður en þeir sem eldri eru. Þannig skiptir máli að horft sé til þarfa þeirra og hlustað á skoðanir þeirra í stefnumótun í samgöngumálum. Það hyggjumst við gera með ríkari hætti en áður og þess mun sjást stað í næstu heildarskoðun samgönguáætlunar.“

Barnaþing er haldið í samstarfi við forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.