Sem kunnugt er gegnir Rauði krossinn út um allan heim gríðarlega mikilvægu hlutverki í ótal verkefnum er lúta m.a. að því að styðja við þá sem minna mega sín eða eiga um sárt að binda vegna m.a. styrjalda og náttúruhamfara. Verkefnin eru óþrjótandi og því miður er alltaf jafn mikil þörf fyrir mannúðaraðstoð af hendi Rauða krossins.

Starfsemi Rauða krossins er víðfeðm og er um víða veröld. Þar er Akureyri engin undantekning. Hér er öflug eining Rauða krossins sem hefur m.a. á sinni könnu skaðaminnkun, námskeiðahald, stuðning við flóttafólk og fatasöfnun. Gaman er að geta þess að í stjórn Rauða krossins við Eyjafjörð eru tveir kennarar við VMA, Karen Malmquist og Hilmar Friðjónsson.

Fatasöfnun er eitt af stærstu verkefnis Rauða krossins við Eyjafjörð. Á Akureyri eru fatagámar við húsnæði Rauða krossins að Viðjulundi 2 þar sem fólk getur skilað fötum sem það er hætt að nota og vill að aðrir fái notið. Fötin eru að stórum hluta send til útlanda og fara til endurvinnslu. Einnig er Rauði krossinn með fatabúð í Viðjulundi 2 þar sem notuð föt eru til sölu. Á tímum loftlagsvár er sjaldan jafn mikilvægt og einmitt nú að endurnýta hluti og leggja þannig lóð á vogarskálarnar í að minnka kolefnissporið. Ánægjulegt er að fjöldi fólks kaupir bróðurpart fatnaðar sem það notar í verslun eins og Rauðakrossbúðinni á Akureyri. Þar er opið alla virka daga kl. 13-17 og á laugardögum kl. 10-16.

Í síðustu viku var efnt til fatamarkaðar Rauðakrossbúðarinnar í Gryfjunni og nemendur og kennarar úr VMA stigu á svið og sýndu fatnað úr Rauðakrossbúðinni. Sannarlega var þetta skemmtilegt og vel heppnað samstarf Rauða krossins á Akureyri og nemendafélagsins Þórdunu.

Skjáskot af vefsíðu: https://myalbum.com/album/oaGsr2QnDJxsXQ/