Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur sínar að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps ársins 2023 til fjárlaganefndar Alþingis. Breytingarnar gera ráð fyrir stórauknum framlögum til öryrkja, fatlaðs fólks.

Frítekjumark öryrkja verði 200.000 kr.

Lagt er til að frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nær tvöfaldist og verði 200.000 kr. á mánuði. Frítekjumarkið er nú tæpar 110.000 kr. á mánuði.

Hækkun frítekjumarksins er mikilvæg til að ryðja úr vegi hindrunum til atvinnuþátttöku þeirra örorkulífeyrisþega sem geta og vilja verið á vinnumarkaði. Hækkunin er jafnframt hluti af heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem er sérstakt áherslumál ráðherra.

Stóraukin framlög vegna NPA – allt að 50 nýir samningar

Lagt er til að framlög vegna NPA (notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk) aukist milli fyrstu og annarrar umræðu um 375 m.kr til að gera megi allt að 50 nýja samninga. NPA-samningar eru fyrir fatlað fólk sem þarf aðstoð í daglegu lífi og er ætlað að veita því tækifæri til að lifa virku og sjálfstæðu lífi. Í dag eru um 95 samningar um slíka þjónustu í gildi og því er lagt til að þeim fjölgi um ríflega 50%.

Samtals er gert ráð fyrir að á árinu 2023 verði framlög ríkisins til NPA alls 1.083 m.kr.

Einnig er gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi eftir 5 ma.kr. af tekjuskatti einstaklinga á móti samsvarandi hækkun í útsvarstekjum sveitarfélaga til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks og stefnt að sérstöku samkomulagi um þessar breytingar.

Mynd/pixabay