Bútasaumsverk Kolbrúnar Símonardóttur hafa undanfarnar vikur skreytt skólann og glatt nemendur og starfsmenn. Einnig voru verkin kveikja að ljóðagerð nemenda efstu bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn þeirra til okkar fyrr í vikunni.

Bútasaumur er ævafornt form af saumi sem spratt frá nauðsyn þess að nýta búta og endurnota efni til þess að mynda stærri fleti í fatnað, ábreiður, tjöld, segl og fleira. Kolbrún hefur saumað fjölda verka úr efnisbútum, t.d. rúmteppi, barnateppi, dúka, gardínur og veggteppi. Hún hannar þessi verk sjálf, raðar saman litum af miklu listfengi og segir sögur af lífinu og tilverunni í gegnum bútasauminn.

Bútasaumsverk Kolbrúnar hafa verið á sýningum hérlendis sem erlendis t.d. á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Kanada. Kolbrún er fædd í Fljótunum en fluttist ung til Siglufjarðar. Hún hefur teiknað, málað, saumað, skorið út í við, unnið gler, tekið ljósmyndir og ritað ljóð. Þegar hún varð fimmtug fór hún að fást við bútasaum og hefur sinnt þeirri listgrein síðan. Kolbrún er mikið náttúrubarn og hefur alla tíð heillast af litum náttúrunnar og notað þá í öllum listgreinum sem hún fæst við. Kolbrún jurtalitar einnig íslenska ull og nær þar fram ýmsum töfrandi litum. Hún rekur Gallerí Imbu á Siglufirði þar sem hún sýnir og selur handverk sitt og hönnun.

 

Frétt og mynd: mtr.is