Vegagerðin hefur boðið út for- og verkhönnun Fljótaganga, vegagerðar á Siglufjarðarvegi milli Stafár í Fljótum og tengingu við núverandi Siglufjarðarveg í botni Siglufjarðar. Um er að ræða 24 km vegagerð og 5,3 km löng jarðgöng. Frestur til að skila inn tilboðum er til 16. desember.
Óskað er eftir tilboði í for- og verkhönnun Fljótaganga, aðliggjandi vega og gerð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Innifalið í verkefninu er m.a. hönnun jarðganga, vega, tveggja brúa, hringtorgs, eins áningarstaðar, einna undirganga fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur, gerð verklýsingar fyrir útboðsgögn verkframkvæmdar og gerð skýrslu fyrir mat á umhverfisáhrifum. Aðlögun núverandi tenginga og heimreiða að nýjum vegi er hluti af verkinu.
Jarðgöngin og vegurinn kemur í stað Strákaganga og vegar um Almenninga. Með framkvæmd styttist leiðin milli Fljóta og Ólafsfjarðar um u.þ.b. 14 km og leiðin milli Fljóta og Siglufjarðar um 10 km.
Árið 2019 var unnin frumkönnun á jarðgangakostum. Jarðgrunnsrannsóknir við munnasvæði í fóru fram árin 2024 og 2025. Fleiri rannsóknir voru gerðar á árinu 2025.

Í útboðsgögnum kemur fram að verkið felst í for- og verkhönnun á Siglufjarðarvegi (76) milli Stafár í Fljótum og að tengingu við núverandi Siglufjarðarveg í botni Siglufjarðar. Um ræðir um 24 km nýja vegagerð, þar með talið 5,3 km löng jarðgöng á milli Nautadals í Fljótum og Hólsdals ásamt tveimur brúm. For- og verkhönnun er hægt að skipta niður í eftirfarandi hluta:
- Nýr vegur um Fljót frá Stafá að Ketilási, um 13 km leið í og við núverandi vegstæði.
- Ný brú yfir Flókadalsá, u.þ.b. 45 m löng auk vinnu við frumdrög.
- Tvö ný vegamót við Ketilás. Annars vegar við núverandi Siglufjarðarveg (76) sem liggur norður eftir Miklavatni og hins vegar við Ólafsfjarðarveg (82) sem verður færður austur fyrir Ketilás á um 700 m löngum kafla.
- Ný brú yfir Brúnastaðaá, u.þ.b. 14 m löng auk vinnu við frumdrög.
- Nýr 3,0 km langur vegur frá Ketilási að Fljótagöngum.
- Ný jarðgöng um 5,3 km löng milli Nautadals í Fljótum og Hólsdal í Siglufirði. Í forhönnun skal staðsetning jarðgangamunna ákvarðast. Í Hólsdal koma munnastaðsetningar til greina bæði sunnan við og norðan við Selá.
- Nýr vegur frá gangamunna í Hólsdal að núverandi Siglufjarðarvegi, um 2,7 km langur. Í Hólsdal er þverun Fjarðarár með brú eða ræsum ásamt tengingum við skipulagt útivistarsvæði Fjallabyggðar.
- Undirgöng í Hólsdal fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi umferð.
- Hringtorg við Siglufjörð og tilheyrandi aðlögun að aðliggjandi vegum.
- Gerð umhverfismatsskýrslu.
- Gerð kynningar- og þingslýsingaruppdrátta vegna samninga við landeigendur.
- Gerð útboðsgagna fyrir verkframkvæmd.
Heimild og myndir af vefsíðu Vegagerðarinnar.




