Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hefur sýnt áhuga á aðkomu heilbrigðisráðuneytisins að átaki stofnunarinnar til að sporna gegn ofbeldi í garð kvenna og stúlkna. Er þá horft til samræmds verklags fyrir þolendur heimilisofbeldis sem innleitt hefur verið á Landspítala. Sérfræðingur ráðuneytisins sem hefur leitt verkefnið frá upphafi fyrir hönd ráðuneytisins kynnti það á fundi með fulltrúum WHO fyrir skömmu og í framhaldi af kynningunni sýndi stofnunin áhuga á aðkomu ráðuneytisins að fyrrnefndu átaki.

„Áhugi Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á aðkomu ráðuneytisins að átaki stofnunarinnar til að sporna gegn ofbeldi í garð kvenna og stúlkna felur í sér viðurkenningu á þeim árangri sem hér hefur náðst með samræmdu verklagi og er hvatning til þess að halda áfram á sömu braut. Þetta er afar mikilvægt verkefni og ég þakka öllum þeim sem að því hafa unnið“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra
Upphaf verkefnis um samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis hófst með ákvörðun heilbrigðisráðherra um að skipa starfshóp til að móta slíkt verklag í byrjun árs 2021. Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur var ráðin til að leiða verkefnið og skilaði hún skýrslu með tillögum starfshópsins í ágúst sama ár. Þá hófst undirbúningur að útfærslu og framkvæmd tillagna. 

Innleiðing verklagsins og aukið fjármagn til verkefnisins

Haustið 2022 var Landspítala falið að hefja innleiðingu verklagsins í starfsemi sinni og styðja við innleiðingu sama verklags við opinberar heilbrigðisstofnanir um allt land. Heilbrigðisráðuneytið lagði Landspítala til 90 milljónir króna til að fjármagna alls sex stöðugildi sérfræðinga í heimilisofbeldis teymi sem sinnir þjónustu á landsvísu. Um er að ræða stöðugildi félagsráðgjafa með aðsetur á bráðamóttökunni og stöðugildi sálfræðings hjá áfallateymi spítalans. Hlutverk þessara fagaðila er að styðja þolendur kynbundins ofbeldis, óháð búsetu og efnahag. Þau koma m.a. þolanda í samband við lögreglu, óski þolandi þess, eru í samskiptum við barnavernd, sýslumann og félagsþjónustuna, benda gerendum á úrræði til aðstoðar, útbúa tilvísanir á viðeigandi þjónustu innan og utan heilbrigðiskerfisins og fylgja málum þolenda eftir. Félagsráðgjafi er málastjóri og sleppir ekki hendinni af þolanda fyrr en mál hans er komið í farveg, innan eða utan heilbrigðiskerfisins. Auk heilbrigðisstarfsmanna fær þolandinn aðstoð lögmanns hvort sem hann óski eftir að leggja fram kæru í málinu eða ekki.  

Mikilvæg lagabreyting

Til að styrkja verklagið var gerð breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn árið 2023 með frumvarpi heilbrigðisráðherra. Voru þar skýrðar heimildir heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi, í samráði við þolanda sem leitar á heilbrigðisstofnun. Var þetta gert þar sem heilbrigðisstofnanir eru oft helsti viðkomustaður þolenda og heilbrigðisstarfsfólk iðulega fyrstu og einu aðilarnir sem fá upplýsingar um ofbeldið. Mikilvægt þótti að taka af tvímæli um heimildir heilbrigðisstarfsfólks til að miðla upplýsingum til lögreglu og þá  hvaða upplýsingum svo henni sé kleift að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þolanda nauðsynlega vernd, öryggi og stuðning. 

112 og leiðbeiningar fyrir þolendur

Á vef Neyðarlínunnar 112.is eru birtar greinargóðar upplýsingar fyrir þolendur heimilisofbeldis, um birtingarmyndir þess, leiðir þolenda til að auka öryggi sitt og upplýsingar um hvert þeir geta leitað eftir heilbrigðisþjónustu og í hverju hún felst, auk upplýsinga um aðra aðstoð og stuðning sem stendur þolendum til boða.