Fyrir lágu á 862 fundi bæjarráðs Fjallabyggðar upplýsingar um verulegar skemmdir sem hafa orðið á gróðri og gangstéttum á því svæði sem leyfi var veitt fyrir að halda snjókross keppni innanbæjar í Ólafsfirði 7. – 9. mars s.l.
Bæjarráð ítrekar þá bókun sem gerð var á fundi ráðsins 27. febrúar s.l. þegar leyfið var veitt og felur sviðsstjóra skipulags- og framkvæmdasviðs að kalla fulltrúa vélsleðafélagsins til fundar til þess að fara yfir málið og tryggja að félagið gangi frá svæðinu eftir sig í samræmi við skilyrði leyfis.
Bókun bæjarráðs Fjallabyggðar frá því 27. febrúar s.l.
Fyrir liggur erindi frá Vélsleðafélagi Ólafsfjarðar þar sem óskað er eftir leyfi til að halda snjókross keppni helgina 7. – 9. mars n.k. innanbæjar í Ólafsfirði.
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti en beinir því til Vélsleðafélagsins að sérstaklega verði hugað að gróðri á umræddu svæði og að Vélsleðafélagið skili svæðinu, eins og kostur er, í sama ástandi og það var áður en kom til snjóflutninga og sérstaklega lögð áhersla á að aðskotahlutir verði fjarlægðir þegar færi gefst.
Mynd/Magnús G. Ólafsson