Undanfarnar vikur hafa tilslakanir á heimsóknartakmörkunum gengið vel og smit í samfélaginu haldið áfram að vera fá.

Í ljósi þess, ásamt því að samkomubanni hefur að mestu verið aflétt í samfélaginu hefur verið tekin ákvörðun um að gera verulegar tilslakanir á heimsóknartakmörkunum á hjúkrunar- og sjúkradeildum HSN frá og með 2. júní 2020. Ekki verða lengur takmarkanir á fjölda heimsókna.

HSN vill minna á eftirfarandi heimsóknarreglur:

  1. Alls ekki koma í heimsókn ef:
    • Þú ert í sóttkví
    • Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
    • Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
    • Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
  2. Mikilvægt er að hafa í huga að hjúkrunardeildir eru heimili þeirra sem þar búa og íbúar þeirra eru viðkvæmir hópar. Til þess að virða rétt þeirra íbúa sem vilja takmarka samskipti við aðra sér til verndar, en jafnframt njóta þess að vera í setustofu á heimili sínu eiga heimsóknargestir eingöngu að vera í heimsókn inni á herbergi íbúa.
  3. Af virðingu við aðra íbúa biðjum við um að heimsóknir séu ekki á matar- og kaffitíma.
  4. Íbúum er áfram heimilt að fara í gönguferðir með sínum nánustu en einnig er heimilt að fara með íbúa út af heimilinu, í bílferðir eða heimsóknir, viðburði eða annað.

Það er mikilvægt að hafa í huga að baráttan gegn COVID-19 er ekki unnin og smitum getur fjölgað hratt eins og reynsla hefur kennt okkur. Ef það gerist þurfa heimilin að grípa aftur til ákveðinna aðgerða og takmarkana.

Áfram skal gæta að grundvallarsmitgát og gæta vel að handþvotti og sprittun handa.

Heimild: hsn.is