Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að vissara sé að fylgjast með veðurútlitinu, eins og spáin lítur út má reikna með hinu versta seinnipartinn í dag.

Háloftastrengurinn kemst norður fyrir land. Þar V-átt. Veldur óðadýpkun lægðar lengst norður með austurströnd Grænlands. Sú lægð keyrir upp V-átt norður af landinu. Loftið reyndar komið ofan af Grænlandi að mestu og það skraufþurrt. Á móti heldur hæðin mikla hér suðausturundan.

 

Mynd/Einar Sveinbjörnsson

 

Fyrir vikið nær VSV vindur sér mjög á strik norðanlands einnig nærri yfirborði þegar líður á morgundaginn. Sérstaklega annað kvöld. Spákortið af Brunni Veðurstofunnar sýnir vindhraða í fjallahæð (um 1.100 m) á miðnætti úr nýjustu spá Harmonie-IGB. Eitt flagg jafngildir 25 m/s (50 hnútum). Við sjáum tvíflaggað eða allt að 50 m/s.

Alveg ljóst að ef þetta gengur eftir verður foráttuhvasst og einkar byljótt þegar streymir þvert á dali og firði með fjallaköstum niður brött fjöll hlémegin. Þetta á við s.s. í Djúpinu, á Ströndum, í Skagafirði einkum utantil, í Eyjafirði og síðar við Skjálfanda og austur á landi s.s. í V-áttinni á Vopnafirði, Héraði og norðanverðum Austfjörðum. Þetta er illviðri af fremur fátíðri gerð, en ég hef ekki gott yfirlit yfir eitthvað sambærilegt.

Um þetta mætti hafa lengra mál, m.a. að mögulega eru hvellirnir tveir, fyrst SV og síðan V þegar Grænlandsloftið strýkst hér við Hornstrandir og annesin norðanlands með veðurhæð (þ.e. meðalvindur) um á 28-30 m/s.

Einar Sveinbjörnsson heldur einnig úti veður vefsíðunnBlika.is sem hann hefur nýlega sett í loftið. Mælum við með að lesendur okkar skoði hana til að fá staðbundnar veðurlýsingar.

 

Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir