Hross eru alla jafna vel í stakk búin til að standa af sér vetrarveður. Áhlaupið sem nú stendur yfir ber þó uppá á viðkvæmasta tíma, þegar folöldin eru að fæðast og fjöldi hryssna annað hvort komnar að köstun eða með nýlega fædd folöld.
Viðkvæmast er að nýköstuð folöld séu köruð svo þau þorni þokkalega og komist strax á spena. Við þær krefjandi aðstæður sem nú eru aukast líkurnar á að þetta fari úrskeiðis, hryssur sinni folöldum ekki nægilega vel eða þau verði seinni á fætur en ella. Því er ekki um annað að ræða en að auka eftirlit mikið með hryssum og folöldum svo grípa megi inní ef á þarf að halda og koma þeim á hús eða í annað gott skjól. Ekki er útilokað að hryssur kasti fyrr en áætlað var, við þessar aðstæður, jafnvel án þess að hafa gert sig til.
Margir hafa gripið til þess ráðs að hýsa allar folaldshryssur og er það vel þar sem aðstaða er góð. Ekki er sjálfgefið að hýsa hryssur sem eru komnar að köstun en getur þó átt við í einhverjum aðstæðum. Streitan sem því getur fylgt, einkum fyrir hryssur sem ekki eru vanar húsvist, er ekki góður undirbúningur fyrir köstun. En veður eins og nú gengur yfir skapar líka streitu þannig að þetta þarf að meta út frá aðstæðum á hverjum stað.
Nauðsynlegt er að gera sérstaklega vel við folaldshryssur á útigangi þegar svona aðstæður skapast. Um að gera að bjóða þeim hey samhliða beit og hafa í huga að það er vel þegið hjá folöldunum að leggjast í þurrt hey þegar jörðin er blaut og köld.
Ef skjól er ekki fullnægjandi má bæta hratt úr því með því að leggja heppilegum tækjum í girðingunni. Hrossahópar munu þó ævinlega mynda sitt eigið skjól með því að stilla sér upp með rassinn í ríkjandi vindátt og verja ungviðið.
Mynd/mast