Fyrir fimm ára snáða, sem ekki vissi betur, hafði hver árstíð sinn ilm og sín hljóð. Það var ekki laust við að fullorðna fólkið kímdi svolítið þegar hann talaði um vetrarhljóð eða morgunilm. Kannski var það vegna þess að það hafði aldrei heyrt eða fundið neitt slíkt. Kannski vegna þess að það hafði aldrei legið undir sænginni sinni á vetrarmorgni og hlustað og fundið.
En svona var þetta nú einu sinni. Það vissi hann.
Marr í mjöll undan syfjuðum stígvélum á leið í vinnuna. Hóstakjöltrin í pabba og lykt af blautum lopavettlingum. Það var veturinn.
Vindurinn gnauðaði ámátlegar en á sumrin, næstum brjóstumkennanlega. Jafnvel hljóðin frá bílunum voru dapurlegri. Allt gekk hægar. Fá bros. Lítið talað.
Já, veturinn var raunamæddur. Sumarið glatt og lifandi. Þá hló allt og þaut hjá í gáska og gleði.
Það brakaði í gólfinu. Nú var pabbi á leið á sjóinn. Pissað. Kveikt í sígarettu og aftur brakaði í gólfinu. Stiginn kveinkaði sér undan þungum fótum. Aumingja pabbi. Nú var kalt að fara á sjóinn.
Það glamraði í leirtauinu í eldhúsinu. Nú var hann að reyna að veiða bolla upp úr hrúgunni í eldhúsvaskinum. Hann hóstaði svona eins og til að reyna að kæfa hljóðið. Smellur, brothljóð, bölvað lágt og hóstað. Það heyrðist aldrei meira í honum en þegar hann reyndi að fara hljóðlega.
Mjúkir fætur læddu sér undan sænginni og tipluðu hljóðlaust eftir köldu gólfinu. Stubbur ætlaði að kyssa hann bless. Fyrst settist hann á stigaskörina og hlustaði. Þefaði.
Stiginn gein óendanlega langur við, þar sem hann rann í eitt saman við myrkrið niðri á ganginum. Ilmur af nýju kaffi og sígarettureyk mætti honum. Hann fikraði sig niður, þrep fyrir þrep. Stiginn kvartaði eilítið yfir ónæðinu svona snemma dags en lét sér lynda að á honum væri troðið. Eldhúshurðin var ekki eins þýðlynd. Æiii!, sagði hún, er snáðinn ýtti við henni. Allt var svo tregt og sérhlífið á veturna.
“Nú ert það þú?” -sagði pabbi eins og hann byggist við draug. “Já ég heyrði í þér.” Sagði snáðinn og lét sem hann væri nývaknaður. “Ég ætlaði bara að kyssa þig bless.”
Tvær hlemmstórar, sigggrónar hendur lyftu honum upp eins og hann væri þyngdarlaus og skeggbroddar stungu hann í vangann. Hann lagði armana um háls pabba og neri vanga við vanga. “Þú stingur.” -sagði hann lágt.
“Ég?” – sagði pabbi eins og ekkert væri fjær. “Það hlýtur að vera þú, sem hefur gleymt að raka þig.” Snáðinn strauk sér um vangann og brosti. “Ég er að safna.” –sagði hann svo. Pabbi hnussaði eilítið eins og hann hafi fengið kusk í nefið. Þannig var hann vanur að hlæja. Svo faðmaði hann litla drenginn sinn að sér, svo fast að hann kenndi til. En það geði ekkert til, því snáðinn vissi hvað það þýddi.
Pabbi setti hann niður á stól og sótti handa honum mjólk og brauðsneið. Svo sátu þeir feðgar í heimspekilegri þögn, hvor á sínum stól og mauluðu bitann sinn.
Pabbi sötraði kaffið sitt í löngum sogum og blés í bollann. Eldhúsklukkan tifaði og hugir þeirra svifu út um gluggann, hátt yfir snarbröttum, vomandi fjöllum í glerkenndu morgunlofti vetrarins.
Skyndilega tók pabbi kipp, stökk á fætur og kveikti á útvarpinu. Veðurfréttir! Þá var nú eins gott að þegja eins og steinn. “Suss!” –sagði hann án þess að nokkur segði nokkuð. Síðan hvolfdi hann sér yfir tækið eins og köttur sem bíður eftir að hremma bráð sína. Það sem eftir fylgdi var eins og helgistund, nema hvað í kirkju heyrist þó alltaf einstaka hósti og stuna.
Afar syfjuð rödd þuldi seiga og hljómbrigðalausa þulu:
“Gert er ráð fyrir stormi á vestfjarðamiðum, norðurmiðum…” og happdrættismiðum og hvað þau nú hétu nú öll þessi mið.
Fyrir snáðanum var þetta aðeins óhemju leiðinleg tugga, sem jafnvel þulurinn skildi ekki sjálfur. En fyrir pabba var þetta eins og höfuðlausn. Spurning um líf og dauða. Og sennilega var það svo. Pabbalausir vinir í götunni báru því vitni.
Að lokum kom romsa um Færeyjar og Færeyjadjúp en þá slökkti pabbi á tækinu og sórst við andskotann. Það gerði hann á hverjum morgni.
Þessu næst snaraði hann sér í gömlu, skotheldu lopapeysuna, sem stóð honum öll á beini og angaði af slori og olíu. Það virtist sama hverju spáði.
Alltaf var farið á sjó.
Snáðinn rétti honum bitaboxið, svo hann gleymdi því ekki, eins og svo oft áður. Skeggbroddar stungu hann í vangann og pabbi var horfinn.
Snáðinn stóð einn á miðju gólfi og sígarettureykurinn hékk í loftinu eins og þunn slæða, blaktandi í trekknum, sem boðaði svo oft storma og stórsjói.
Eldhúsklukkan tifaði eins og berfætt barn inn í eilífðina og vindurinn grét hið óorðna úti fyrir.
Það voru vetrarhljóð og morgunilmur.