Smáréttakvöld verður haldið hjá Pizzabakaranum á Siglufirði dagana 18. til 20. desember þar sem gestum verður boðið upp á notalega stemningu og ljúffenga smárétti. Að sögn Theodórs Dreka Árnasonar matreiðslumanns er þetta liður í markvissri þróun eldhússins og skref í átt að fjölbreyttari upplifun fyrir gesti.

Theodór segir hugmyndina hafa verið til staðar frá upphafi. Markmiðið hafi verið að gera meira úr eldhúsinu ef vel gengi með pizzurnar. Viðtökurnar hafi farið langt fram úr væntingum og því hafi verið ráðist í töluverðar endurbætur. Eldhúsið var tekið í gegn, veggir rifnir, nýtt gólfefni lagt, allt málað og bætt við nýjum tækjum. Eldhúsið hafi þó ekki verið tilbúið fyrr en í byrjun desember og því hafi jólaundirbúningurinn farið að hluta fram hjá þeim. Í stað þess hafi verið ákveðið að prófa smáréttaseðil með hóflegu jólabragði.

Fyrsta helgin á Smáréttakvöldinu, sem haldin var dagana 11. til 13. desember, gaf góða mynd af viðtökunum. Laugardagurinn reyndist afar vel heppnaður og viðbrögð gesta voru í samræmi við væntingar, á meðan föstudagurinn var rólegri enda mikið um að vera í bænum á þeim tíma.

Aðspurður um vinsælustu réttina segir Theodór smáréttina ekki flókna í uppbyggingu en unnar úr framúrskarandi hráefni. Sá réttur sem hafi vakið mesta lukku sé smálúðu ceviche, ferskur og örlítið sterkur réttur með innblæstri frá Perú.

Smáréttirnir eru bæði hugsaðir til að panta hver fyrir sig og sem heildstæð upplifun. Theodór segir skemmtilegast að velja svokallaðan set menu þar sem gestir smakka sex rétti í minni skömmtum sem borðið deilir sín á milli.

„Við erum bara rétt að byrja“ segir Theodór Dreki um smáréttakvöldið - Sérvaldir réttir í boði 18. – 20. desember

Theodór Dreki Árnason matreiðslumaður og Jakob Örn Kárason bakari og eigandi.
Mynd: úr safni / Veitingageirinn.is

Hann segir það hafa verið afar ánægjulegt fyrir eldhústeymið að breyta til og vinna að svona kvöldum. Að hans mati er fátt skemmtilegra en að prófa nýjar leiðir og vonast hann til að bæði starfsfólk og gestir finni fyrir þeirri gleði. Þetta sé allt gert fyrir fólkið sem leggur leið sína á staðinn.

Að lokum segir Theodór ljóst að þetta sé aðeins byrjunin og gefur í skyn að frekari þróun og nýjar hugmyndir séu þegar í farvatninu.

Mælt er með að panta borð fyrirfram í síma 847-6283. Pöntuð borð verða í forgangi en einnig verður hægt að koma í pizzur samhliða smáréttakvöldinu.

„Við erum bara rétt að byrja“ segir Theodór Dreki um smáréttakvöldið - Sérvaldir réttir í boði 18. – 20. desember

Mynd: facebook / Aðalbakarí-Siglufjörður