Eyþing stendur fyrir stórfundi, um mótun nýrrar sóknaráætlunar Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024, í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 19. september kl. 16-19.
Markmið fundarins er að draga saman áherslur í atvinnumálum, nýsköpun, menningarmálum og umhverfismálum á Norðurlandi eystra, ásamt því að koma fram með tillögur að sértækum markmiðum og aðgerðum.

Sóknaráætlun Norðurlands eystra er sértæk byggðaáætlun fyrir landshlutann og jafnframt samheiti yfir samning Eyþings við hið opinbera og sveitarfélög innan Eyþings um fjármögnun áhersluverkefna og Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra. Í sóknaráætlun kemur fram stöðumat landshlutans, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum.

Ummæli styrkþega:

„Ef ekki væri fyrir Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra, væri ekki búið að opna HÆLIÐ setur um sögu berklanna – svo einfalt er það. 4,5 milljónir á tveimur árum skiptu öllu máli í mínu tilviki“.

– María Pálsdóttir, Hælið setur um sögu berklanna.

„Verksmiðjan á Hjalteyri var opnuð sem listrými árið 2008 en var þá fyrst og fremst tilraun sem hægt var að hrinda í framkvæmd vegna fyrstu styrkúthlutana Eyþings. Síðan þá hefur starfsemin vaxið og Verksmiðjan hefur orðið vel þekkt sýninga og verkefnarými og hlaut m.a. Eyrarrósina árið 2016. Án stuðnings úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra hefði Verksmiðjuverkefnið ekki verið möguleiki.“

– Gústav Geir Bollason, Verksmiðjan á Hjalteyri.

„Þróun ferðamannaleiðar er kostnaðarsamt ferli sem er ekki á færi ferðaþjónustuaðila án aðkomu opinberra styrktaraðila. Stuðningur úr Uppbyggingarsjóði og Sóknaráætlun gerði okkur kleift að fjármagna fyrstu ár ACW og þannig koma í loftið þriðja besta áfangastað Evrópu sem var þróaður með aðkomu 20 sveitarfélaga og um 200 ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi auk annarra hagsmunaaðila.“

– Arnheiður Jóhannsdóttir, Arctic Coast Way.

„Stuðningur Uppbyggingarsjóðs og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar ásamt samstarfi við Öldrunarheimili Akureyrar skipti sköpum á sínum tíma, þar sem hann innsiglaði árangursríkt þróunarsamstarf. Þetta samstarf hefur leitt til aukinna umsvifa félagsins hérlendis sem erlendis, en starfsmönnum hefur fjölgað úr 7 í rúmlega 20 síðan 2014. Til viðbótar við okkar ávinning njóta heilbrigðisstofnanir víðsvegar um land afrakstursins í formi hugbúnaðarlausna sem leiða til hagræðingar í rekstri.“

– Garðar Már Birgisson, Þula – Norrænt hugvit.

Afar mikilvægt er að heyra raddir sem flestra og hvetjum við því atvinnulífið, unga fólkið, fólk í nýsköpun og mennta- og menningargeiranum til að mæta og koma sínum hugmyndum á framfæri – raunar alla þá sem hafa áhuga. Afurðir fundanna verða dregnar saman sem uppistaðan í efnistökum við mótun nýrrar sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024.

Léttar veitingar verða í boði og er fundurinn opinn öllum.