Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis Siglufjarðar vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við húseignina að Gránugötu 13B.
Tillagan var lögð fram fyrir hönd eigenda lóðarinnar og felur breytingin í sér m.a. skilgreiningu á nýjum byggingarreit, breytingar á bílastæðum sunnan við húsið og tilfærslu aðalinngangs. Markmið breytingarinnar er að heimila stækkun núverandi húss til suðurs og bæta nýtingu lóðarinnar.
Formaður nefndarinnar vék af fundi við afgreiðslu málsins. Nefndin samþykkti að tillagan yrði grenndarkynnt aðliggjandi lóðarhöfum, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ekki hefur verið tekin lokaákvörðun um breytinguna, en niðurstöður grenndarkynningar munu liggja fyrir áður en málið verður tekið til endanlegrar afgreiðslu.
