Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 22. desember sl. var tilkynnt um breytingar á staðgreiðslu um áramót. Að þessu sinni voru breytingarnar kynntar í kjölfar þriðja samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga sem rennur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til jöfnunar vegna málefna fatlaðs fólks hækkar um 0,22 prósentustig en samhliða hækkar hámarksútsvar um sömu prósentu.

Tekjuskattsprósentur lækka einnig um sömu prósentu í öllum skattþrepum og verður því engin breyting fyrir skattgreiðendur í þeim sveitarfélögum þar sem útsvar hækkar um 0,22 prósentustig milli ára. Samkomulagið kvað einnig á um að sveitarfélög hefðu heimild til að ákvarða útsvar vegna ársins 2023 fyrir 30. desember 2022 og tilkynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu eigi síðar en þann dag.

Meðalútsvar á árinu 2023 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 14,67% og hækkar um 0,22% milli ára. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið. Af 64 sveitarfélögum hækka 60 sveitarfélög útsvarshlutfall sitt um 0,22 prósentustig milli ára, tvö sveitarfélög halda útsvari sínu óbreyttu og tvö sveitarfélög hækka útsvarshlutfall sitt um meira en 0,22 prósentustig. Árið 2023 mun 51 sveitarfélag leggja á hámarksútsvar en tvö sveitarfélög hafa útsvarshlutfall sitt í lögbundnu lágmarki.

Mynd/Hari