Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað könnun til matvælaráðuneytisins um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála.

Spurningakönnunin var liður í stefnumótunarverkefninu Auðlindin okkar og var ætlað að fá skýrar vísbendingar um viðhorf almennings til aðskilinna þátta íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis. Svarendur í könnuninni voru 1.133 og var úrtakið lagskipt eftir kyni, aldri og búsetu til að samsetning þjóðarinnar yrði sem best endurspegluð.

Spurt var um viðhorf gagnvart einstökum þáttum fiskveiðistjórnunarkerfisins og þeirra verkefna sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar í gegnum tíðina til að koma til móts við einstök sjónarmið. Niðurstöður könnunarinnar sýna að viðhorf almennings skiptist eftir því hvaða einstaka þætti kerfisins er spurt um, meirihluti svarenda er ánægður með suma þætti kerfisins en óánægður með aðra. Nokkur munur er einnig milli kynja, aldurshópa, stjórnmálaskoðana og stöðu á vinnumarkaði.

Niðurstöður könnunarinnar eru veigamikið innlegg í málefnalega umræðu um sjávarútveg. Að kanna hug almennings var mikilvægt til að breikka út samráðsferlið sem er eitt af meginstoðum verkefnisins Auðlindin okkar. Þar er meðal annars leitast við að skapa aukna sátt um sjávarútveg á grundvelli upplýstrar umræðu og endurskoðunar á kerfinu.

Að loknum opnum samráðsfundum sem haldnir voru víðsvegar um landið sl. vetur voru bráðabirgðaniðurstöður úr verkefninu kynntar á samráðsgátt stjórnvalda í janúar og eru nú til úrvinnslu. Lokatillögur starfshópanna verða kynntar á vormánuðum og munu endanlegar afurðir líta dagsins ljós sem frumvörp til Alþingis vorið 2024.

Vakin er athygli á því að unnt er að koma á framfæri frekari ábendingum og upplýsingum sem kunna að nýtast í verkefninu í gegnum netfangið audlindinokkar@mar.is.

Könnun Félagvísindastofnunar má nálgast hér.

Mynd/Golli