Um nýliðna helgi var réttað í Holtsrétt í Fljótum.

Margt var um manninn og góð stemming í fólki. Við réttina stóðu nokkrir starfsmenn Depla í Fljótum og grilluðu hamborgara og pylsur fyrir gesti og gangandi, sem fyrirtækið bauð upp á, auk léttra drykkja. Deplamenn tóku einnig þátt í göngum með Fljótamönnum.

Glorsoltinn fréttamaður Trölla fékk ljúffengan hamborgara þar sem Deplamenn voru að grilla.

 

Haukur B. Sigmarsson er framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi og tók við því starfi í júlí 2017. Starfsmenn eru 19 á Norðurlandi, en alls starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu á Íslandi sem er einnig með skrifstofur syðra. Eleven Experience rekur meðal annars lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum.

Haukur B. Sigmarsson framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi

 

Trölli.is náði tali af Hauki við réttina. “Við erum stoltir þátttakendur í að byggja upp Fljótin” segir Haukur. Upphaflega var stefna fyrirtækisins að vera ekkert að “ana neinu fram” eins og hann orðaði það, en nú er verið að leita eftir viðbrögðum frá þeim, eftir að ýmsar staðreyndavillur hafa verið settar fram. Þau vilja leiðrétta ýmsan misskilning og í framhaldinu sýna almenningi aðeins meira hvað þau eru að gera.

Til dæmis styrkti Eleven björgunarsveitina nýlega og gerði samning við Olís til að hafa opið á Ketilási – án þess að vera neitt að segja frá því. Fólk er oft hrætt við það sem það þekkir ekki, sem er alveg eðlilegt, en Haukur er stoltur af því að leiða þetta verkefni og ánægður með þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið gagnvart Eleven Experience hér um slóðir.

Haukur er ættaður frá Hólmavík á Ströndum, uppalinn í Reykjavík, sonur Sigmars B. Haukssonar fjölmiðlamanns. Starfs-bakgrunnur Hauks er úr ferðaþjónustu, en hann var áður framkvæmdastjóri Servio, sem býður upp á fínni bíla með þjónustu fyrir efnameira fólk.

Sumir bændur voru mjög neikvæðir á aðkomu Eleven Experience, með því að kaupa upp jarðir hér, en þegar bændurnir kynntust fyrirtækinu og áformum þess betur kom í ljós að þeir vilja vera við hlið hefðbundins búskapar, gera upp hús og laga til í umhverfinu.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir
Forsíðumynd: úr myndasafni Depla