Trölli.is hefur alloft birt fréttir þess efnis að ófært er á Siglufjarðarvegi, ýmist vegna ófærðar, snjóflóða- eða skriðuhættu.

Vísir.is birti frétt þess efnis 30. október að Vegagerðin hefur lýst því yfir að við­varandi ó­vissu­stig er á Siglu­fjarðar­vegi.

Sagði þar meðal annars. Viðvarandi óvissustigi hefur verið lýst yfir á Siglufjarðarvegi vegna jarðskriðs og hættu á grjóthruni allt árið um kring. Fyrrverandi eftirlitsmaður segir aldrei muni vera hægt að laga veginn almennilega, finna verði varanlegri lausn.

Það var í byrjun [október]mánaðar sem Vegagerðin ákvað í fyrsta skipti að lýsa yfir viðvarandi óvissustigi á veginum.

Allur hluti vegarins sem liggur um Almenninga er flokkaður sem skriðuhættusvæði og þegar því lýkur við Mánárskriður tekur við grjóthrunssvæði alla leið inn í bæinn.

Í viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar vegna hættu á veginum segir að þar aki að meðaltali 295 bílar á sólarhring. Þeir eru mun fleiri yfir sumartímann; 510 að meðaltali á dag en 130 á veturna. 

Á árunum 2010 til 2016 urðu tvö slys á veginum á ári að meðaltali en það er 2,3 sinnum hærri tíðni en gerist að meðaltali á þjóðvegum landsins. Og á stuttum vegarkafla sem nær inn fyrir Strákagöng er slysatíðnin orðin tæplega þrisvar sinnum hærri og er sá kafli flokkaður með hættulegustu vegum landsins.

Ástandið verður sérstaklega slæmt í miklum rigningum og í dag varaði Vegagerðin ökumenn við hættu á grjótskriðum.

Sjá nánar: Hér

Mynd/ Jón Ólafsson