Erindi barst frá nokkrum foreldrum nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem þeir leggja til að fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar skoði að seinka skólabyrjun nemenda í 6.-10. bekk. Vísa þeir þar til rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum lengri svefns unglinga á líðan og námsárangur.
Erindið var lagt fyrir 128. fund fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar og undir þeim lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkaði fyrir erindið og fagnar því. Skipulagsbreytingar eins og um ræðir þarfnast góðs undirbúnings og samráðs við hagsmunaaðila. Nefndin leggur til að skoðað verði hvort þessar hugmyndir geti samrýmst þeim breytingum sem verða á skipulagi skólastarfs við flutning 5. bekkjar yfir í starfsstöðina við Tjarnarstíg haustið 2024.
Nefndin vísar erindinu til úrvinnslu hjá deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og skólastjóra grunnskólans.