Á síðasta sveitarstjórnarfundi Húnaþings vestra, samþykkti sveitarstjórn tillögu starfshóps um að ráðist yrði í deiliskipulag svokallaðs Miðtúnsreits sem liggur vestan við Nestún á Hvammstanga.
Er hugmyndin að þar verði skipulagt nýtt hverfi með íbúðum fyrir 50 ára og eldri, svokallaður lífsgæðakjarni. Staðsetningin er afar ákjósanleg, miðsvæðis á Hvammstanga og stutt í þjónustu heilsugæslu og apóteks, íþróttamiðstöð, íbúðir eldri borgara í Nestúni, Félagsheimilið þar sem Félag eldri borgara mun vera með aðstöðu o.s.frv. Samhliða er gert ráð fyrir að grænt svæði vestan við heilsugæslu verði gert að útivistarsvæði með göngustígum, Pétanque velli, áningarstöðum o.s.frv.
Í starfshópnum sátu Guðmundur Haukur Sigurðsson formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra, Guðmundur Sigurðsson og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri. Með hópnum starfaði Bogi Magnusen Kristinsson skipulags- og byggingafulltrúi en hann teiknaði upp hugmyndir að skipulagi hverfisins sem fóru til umræðu hjá Félagi eldri borgara áður en skipulags- og umhverfisráð og síðar sveitarstjórn tóku hugmyndirnar til umfjöllunar.
Gert er ráð fyrir að svæðið verði deiliskipulagt á komandi mánuðum og að því loknu verði leitað eftir samstarfsaðilum að uppbyggingu íbúða, hvort sem verður um að ræða leiguíbúðir eða íbúðir til sölu.