Undanfarin þrjú ár hefur Selvík ehf (Sigló hótel) í samstarfi við Skíðafélagið Skíðaborg Siglufirði byggt upp öfluga starfsemi í kringum skíðagöngunámskeið í Fjallabyggð.

Jafnframt uppbyggingu á skíðagöngunámskeiðunum hefur Selvík ehf unnið að undirbúningi að sleðabraut (tubing) í skógrækt siglfirðinga í samráði við Skógræktarfélag Siglufjarðar.

Til að gera starfsemina aðgengilegri vill Selvík ehf byggja upp og reka nýja og endurbætta ljósabraut í Hólsdal með nýtísku LED flóðljósum.

Til að tengja svæðið við Hól við aðstöðu í golfskála þarf að útbúa einfalda trébrú yfir Fjarðará, og er beðið eftir leyfi Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar til að verkið geti hafist sem fyrst þar sem nú styttist í mögulegar vetrarhörkur.

Bókun Skipulags- og umhverfisnefndar:

Með bréfi dagsettu 22. október 2020 óskar Róbert Guðfinnsson fyrir hönd Selvíkur ehf. eftir leyfi til þess að láta endurbyggja ljósabraut í tengslum við gönguskíða- og sleðabraut í Hólsdal. Einnig er óskað eftir leyfi til þess að gera einfalda trébrú yfir Fjarðará. Meðfylgjandi er teikning af göngu- og sleðabraut með grófri staðsetningu ljósa.
Nefndin tekur jákvætt í erindið og samþykkir með fyrirvara um að fyrir liggi samþykki Skógræktarfélags Siglufjarðar og óskar einnig eftir nánari útfærslu á fyrirhugaðri trébrú yfir Fjarðará.

Erindi Selvíkur má finna hér.