Enn og aftur kemur upp umræða vegna aðstöðuleysis póstbílsins við Pósthúsið á Siglufirði.

Aðstaða til vörulosunar hefur verið afar slæm eftir flutning póstsins að Aðalgötu 34, þar hefur póstbílnum verið lagt allavega, þar á meðal í stæði fyrir fatlaða. Einnig leggja viðskiptavinir póstsins í stæði fatlaðra, yfir gangbraut og á gangstétt beggja megin götunnar svo hætta getur stafað af fyrir gangandi vegfarendur.

Sjá frétt: PÓSTBÍL LAGT Í STÆÐI FATLAÐRA

15. ágúst 2018 lagði Hörður Jónsson framkvæmdastjóri pósthúsasviðs Íslandspóst erindi fyrir Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar, erindi dagsett 9. júlí 2018. Starfsmaður flutningabíls Íslandspósts á erfitt með að athafna sig fyrir framan Aðalgötu 34. Óskað er eftir lausn á málinu sem fyrst. Lagður var fram tölvupóstur milli Harðar og Konráðs, formanns nefndarinnar þar sem sátt hefur náðst um málið milli hagsmunaaðila og lögreglu. Losun á póstbílnum mun fara fram við norðurhlið pósthússins en í undantekningartilfellum við suðurhlið hússins.

21. ágúst 2018 tók bæjarráð Fjallabyggðar málið fyrir þar sem óskað var eftir lausn á málinu sem fyrst.

Á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar þann 28. október 2020 var lagður fram tölvupóstur frá Skúla Rúnari Árnasyni fyrir hönd Íslandspósts, þar sem óskað var eftir því að fá leyfi til þess að samnýta stæði fyrir fatlaða fyrir framan afgreiðslu Póstsins að Aðalgötu 34 á Siglufirði, þannig að stæði fyrir fatlaða verði einnig ætlað til vörulosunar fyrir Póstinn. Um er að ræða 10-15 mínútur tvisvar á dag.

Nefndin getur ekki samþykkt að leyfa vörulosun úr stæði sem er P-merkt. Umferðarlögin eru skýr hvað það varðar.