Nú styttist í að Leikflokkurinn á Hvammstanga frumsýni söngleikinn Hárið. Frumsýningardagurinn er 17. apríl n.k.

Trölli.is náði af því tilefni viðtali við Sigurð Líndal leikstjóra þar sem hann segir aðeins frá verkinu og Sigurvald Ívar Helgason tæknimann og trommuleikara. Sigurður og Sigurvald eru báðir þaulreyndir leikhúsmenn í atvinnuleikhúsum bæði hérlendis og erlendis, enda ber uppsetning leikflokksins á Hárinu þess glögg merki, mikill metnaður er lagður í hvert smáatriði, hvort sem það tengist leikmynd, búningum, leik, hljóði, ljósum eða sviðsframkomu.

Í þessari uppfærslu af Hárinu eru nokkuð margir úr sama hópi og voru með í Súperstar, sem leikflokkurinn setti upp á dögunum og fékk mjög góðar undirtektir, og þeir sem koma inn nýir hafa lært mikið af þeim sem hafa verið áður. Þannig byggist upp meiri reynsla hjá hópnum með hverri sýningu. Margir í leikarahópnum eiga lítil börn, meðal annars eru fimm hjón eða pör sem eru bæði í sýningunni, auk einstæðra foreldra með ung börn,þannig að barnagæslu var komið upp á æfingatímabilinu í hliðarsölum félagsheimilisins. Það má því segja að börnin taki vissan þátt í undirbúningnum, á sinn hátt.

Matráður sér um að enginn gleymi að borða og passar vel upp á að fólk haldi fullri orku við æfingarnar.

Sigurður segist ekki vilja vera í neinu dútli, og heldur áfram:

Við þá sem sáu Súperstar hjá okkur á sínum tíma get ég sagt að fólkið sem var í þeirri sýningu hefur allt tekið framförum og er betra núna en nokkru sinni fyrr.

Það sem er ákveðin áskorun þegar þú ert að setja upp verk þar sem samhengi verksins er kannski ekki kunnugt öllum. Nú veit ég að það halda allir að þeir þekki Hárið og viti hvað það er, þekki tónlistina o.s.frv. en þetta er rúmlega 50 ára gamalt, og verkið, og auðvitað þessi samfélagsbylting sem átti sér stað, sem við köllum hippana, sumar ástarinnar 68 og allt þetta sem við erum að reyna að gera skil í sýningunni, það kemur ekki af sjálfu sér. Það verður til af því að Bandaríkin eru í miðju hrikalegu stríðsbrölti í Víetnam, þeir eru í stríði sem er líka fyrsta stríðið í heiminum sem er svona nokkurn veginn bein útsending frá. Þar sem eru svo margir fjölmiðlar á staðnum, mikið tekið af myndum, fólk er raunverulega að sjá nokkurn veginn jafnóðum hvað er að gerast, og þetta er stríð sem mörgum þótti ekki eiga rétt á sér, að þarna væru Bandaríkjamenn í einhverri skrýtinni erindisleysu jafnvel. Auðvitað má alveg ræða það fram og til baka hvort þetta hafi ekki verið algjört “fíaskó” raunverulega.

En þegar Hárið var sett upp í fyrsta skipti, þá voru náttúrulega mótmæli gegn stríðinu úti á götum. Þannig að áhorfendur voru að ganga inn, horfa á þetta verk og sjá þetta fólk að mótmæla allt í kring þannig að samhengið gengur með þeim inn í salinn.

Hér í dag er það auðvitað ekki þannig, það er langt um liðið, við erum í öðru landi og annarri heimsálfu og allt það. Þannig að það sem við grípum til öðru hvoru er hreinlega að nota nútíma tækni og taka eitthvað af þessum fréttamyndum sem þarna voru af stríðinu og þeim atburðum, og varpa þeim upp í bakgrunninn í ákveðnum lögum, þar sem það á mest erindi.

Á sama tíma, því þessi mál sem þarna er verið að ræða í verkinu eru ekkert búin, var til dæmis Martin Luther King drepinn um svipað leyti og Hárið var frumsýnt á Broadway. Við notum t.d. mynd þar sem þú sérð fullt af fólki sem er að mótmæla bágri stöðu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna haldast í hendur og búa til breiðfylkingu og svo kemur myndavélin til baka og þú sérð nákvæmlega eins uppstillingu þar sem fólk er að mótmæla nákvæmlega sama hlutnum, nema bara fyrir tveimur árum í Black Lives Matter hreyfingunni.

Það er líka mikilvægt, á sama tíma og við útskýrum þessa hluti sem eru orðnir hálfrar aldar gamlir, að við sýnum fram á að þeir eigi sér líka skírskotun í dag.

Ég held líka, ef við horfum bara á það sem er stór hluti af sýningunni sem eru mótmæli, að mótmæli eru stór hluti af þessu, þó þau séu mikið afsviðs, þá eru persónur í verkinu að taka þátt í þessum stóru frægu mótmælum eins og við Pentagon o.s.frv.

Sigurður Líndal Þórisson leikstjóri

 

Við erum hérna á Íslandi núna að ræða mikið hverjir mega mótmæla, eins og t.d. þau mótmæli sem eru að gerast í sambandi við hælisleitendur. Hverjir mega mótmæla? hvernig? þurfa mótmæli að vera þægileg fyrir áhorfendur? ef mótmælin eru þægileg, eru þau þá að skila einhverju?

Er það ekki eðli mótmæla að vera óþægileg og stuða okkur?. Hversu mikið viljum við setja hömlur á tjáningarfrelsi einstaklinga til þess að mótmæla, vegna þess að okkur þykir það óþægilegt?

Ef við erum fylgjandi málfrelsi, erum við þá ekki líka fylgjandi því að okkur líði stundum óþægilega með það sem við erum að sjá og heyra?

Þannig að við erum líka í þessari stöðu. Þessi umræða og málefnin sem liggja þarna undir og eru kannski kjarninn í því sem er svo auðvelt að afskrifa í Hárinu sem bara einhverja krakka að fikta í sýru og hassi, neita að vinna og neita að fara í herinn og allt þetta, að undir því eru virkilega mikilvægir hlutir, sem mér sem leikstjóra finnst vera á minni ábyrgð að passa að gleymist ekki, þó það geri kannski sýninguna óþægilegri en ella. Því þótt það sé rosa mikið gaman og sýningin sé vissulega skemmtileg og hlægileg og allt það, fantagóður söngur og tónlist og allt svoleiðis, þá sprettur það samt ekki upp af sjálfu sér.

Það er þarna mjög alvarlegur málaflokkur og alvarlegir hlutir til umræðu.

Trölli.is: Þið eruð sem sagt að gera hluti varðandi sýninguna til þess að nútíma Íslendingar skilji þetta betur en ella.

Við erum að reyna það og ég vona að það takist. Þarna er barátta bæði gegn stríði og barátta gegn mismunun á grundvelli kynþáttar og kynhneigðar, og allir þessir hlutir skipta máli. Það skiptir málið að það sé ekki skautað fram hjá þeim. Við erum endalaust að ræða þetta, og þetta er ennþá til tals, samræðan sem hófst þarna með menningarbyltingunni er ekki búin, langt því frá.

Siggi og Silli

Trölli.is: Er þetta pólitísk sýning?

Allt leikhús er pólitískt. Það er pólitísk gjörð að setja upp leiksýningu. Þó hún sé kannski ekki flokkspólitísk eða eigi sér stað á hægri / vinstri ás, þá er það samt pólitískt. Það er kannski hvergi jafn pólitískt að setja upp leikhús eins og í áhugamanna samfélagi. Því að það er mjög pólitískt að segja: hérna eru 40 – 50 manns sem vinna bara venjuleg störf og eiga fjölskyldur og hafa heilmikið að gera sem ætla hérna í marga mánuði að gefa ómælt af tíma sínum og orku til að takast á við áskoranir sem eru kannski ekki alltaf þægilegar, vegna þess að einhvernveginn trúum við á samtakamáttinn, trúum því að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli, að við getum á einhvern hátt útvíkkað umræðu í okkar samfélagi, með því að vekja upp spurningar.

Þegar það kom til umræðu að setja upp þessa sýningu, þá fór ég og hitti hann Luis vin minn sem er frá Brasilíu, því að í sýningunni er ein persóna sem er svört. Ég sagði við hann: “ef þú ert ekki með þá getum við ekki gert þetta”.

Það er þannig að þegar þú horfir á þetta verk, sem hefur verið sett upp bæði af áhugaleikhúsi og atvinnuleikhúsi, þá hefur fólk leyft sér að klæða sig í húðlit annarra eins og það væri bara hver annar búningur. Ég held að loksins sé okkar einsleita samfélag að verða komið inn á það að þetta er ekki búningur. Í Hárinu er alveg heilt lag sem þessi persóna syngur, þar sem hann tekur upp öll niðrandi orðin sem hafa verið sögð um svart fólk, og segir þau með stolti. Það er lagið sem heitir Litaður. Þessi persóna hefur sungið þetta lag í gegnum tíðina leikin af náhvítum Íslendingum sem hafa verið málaðir. Nú ætla ég að vona að sá tími sé bara búinn. Ef þú átt ekki mannskap í þetta, þá gerir þú bara eitthvað annað. Það er nóg til af söngleikjum í heiminum og það er ótrúlega leiðinlegt, miðað við hvað söngleikir eru vinsælir og eiga yfirleitt langt líf eftir að þeir eru settir upp í stóru leikhúsunum, hvað þau endurtaka alltaf sama hringinn endalaust í staðinn fyrir að þýða nýja og setja upp. Það er til fullt af söngleikjum sem hafa unnið stærstu verðlaunin á því sviði en hafa aldrei verið settir upp á Íslandi. Mér finnst það viss skylda hjá þessum ríkisreknu leikhúsum að taka séns og láta reyna á þessi stóru verkefni, það gerist stundum en það er mikill akur eftir óplægður í því hvað söngleikina varðar.

Luis býr hér á Hvammstanga ásamt konu sinni og tveimur sonum, og bæði hann og konan hans eru í sýningunni. Hún er doktor í ferðamálafræði, ættuð frá Brasilíu og Costa Rica en fædd í Arizona, vinnur hjá Selasetrinu á Hvammstanga og Háskólanum á Hólum.

Það má til gamans geta þess að yngsti þátttakandinn í sýningunni er 15 ára en sá elsti 67 ára, þannig að þar er 52 ára aldursmunur á milli þess elsta og yngsta sem eru á sviðinu.

 

Sigurvald Ívar Helgason tæknimaður og trommuleikari

 

Trölli.is bað Sigurvald að segja okkur eitthvað um tæknimálin í sýningunni.

Sigurvald:

Við erum að taka í notkun nýjan búnað, bæði í ljósum og hljóði, erum núna orðin nánast sjálfbær í tæknibúnaði. Í Súperstar vorum við að prófa okkur áfram með því að fá leigt og lánað hér og þar, það svona slapp fyrir horn, tók marga daga að finna út úr því að fá það allt til að virka, en núna erum við bara á mjög þokkalega góðum stað með tæknibúnaðinn.

Trölli.is: Og eyðið þá frekar dögunum í að ákveða hvernig þið viljið útsetja og hafa hlutina?

S: Já það er akkúrat það – nýr hausverkur, segir Silli og hlær.

Eftir að taka þátt í Súperstar og svo Snædrottningunni sem sýnd var fyrir síðustu jól eru allir ákveðnir í því að gera geggjaða sýningu. Mikill metnaður í fólkinu.

Við erum með fullt af nýjum ljósum, þótt það sé kannski ekki endilega áhugavert þá nota þrjú af nýju ljósunum 91 rás hvert, í ljósastýringu. Mér finnst líka mjög áhugavert að það hefur aldrei heyrst í þessu húsi hljómur í líkingu við það sem við eigum von á með nýja hljóðkerfinu. Ef við berum saman við Súperstar, þar sem allt var meira og minna lánað eða leigt, þá erum við núna í Hárinu að fá lánuð aðeins 6 ljós, en það er bara af því að leikstjórinn vill fá svona gömul “ódýr” bar-ljós til að hafa með – sem reyndar eru mjög flott sko. Alls eru um 50 ljóskastarar notaðir í sýningunni.

Svo varðandi hljóðið, þá eru allir í hljómsveitinni með heyrnartól og geta hver fyrir sig stjórnað blöndunni á því sem þeir heyra, í snjalltækjunum sínum. Allir söngvarar eru með þráðlausa hljóðnema í spöng á andlitinu. Við keyptum 16 þráðlausar spangir og leigjum 4 til viðbótar.

 

Trölli.is þakkar þeim félögum fyrir spjallið og hvetur alla til að sjá  Hárið um páskana, í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Hægt er að finna nánari upplýsingar um sýninguna á leikflokkurinn.is