Veðurstofan birti í gær yfirlit vegna Öræfajökuls. Þar segir meðal annars:

“Fjallið hefur þanist út frá áramótum 2016-17. Þenslunni fylgir aukin jarðskjálftavirkni og aflögun, sem kemur fram í úrvinnslu gervitunglagagna og GPS mælinga. Orsök þenslunnar er talin vera innskot nýrrar kviku í rótum eldstöðvarinnar sem byggir upp þrýsting inni í fjallinu.”

“Jarðskjálftavirknin í ár hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust og hefur heldur aukist frá því í sumar. Bæði mælast nú fleiri skjálftar en einnig eru þeir stærri og þar með orkumeiri. M.ö.o. þá mælast nú í haust fleiri skjálftar af stærð M1,5 til M3 en áður.”

“Virkni Öræfajökuls nú er dæmigerð fyrir eldfjöll sem búa sig undir eldgos. Virknin getur hætt áður en til goss kemur en um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi.

Ein möguleg afleiðing núverandi þróunar er að virknin vaxi enn og endi með eldgosi en ekki er hægt að segja hvenær það yrði.

Ekki er útilokað að fleiri kvikuinnskot myndist inní fjallinu. Þetta gæti haft áhrif á jarðhitavirkni og aukið hættu á jökulhlaupum.”

 

Sjá vef Veðurstofunnar