Nýlega sendi fjölmiðillinn Trölli.is / FM Trölli erindi til Fjallabyggðar með hugmyndum um samstarf miðilsins við Fjallabyggð.

Á 47. fundi Markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar sem fram fór 24. október síðastliðinn var bókað:

4. 1810051 – Erindi frá Trölla, hugmyndir um samstarf.

Borist hefur erindi frá Gunnari Smára Helgasyni og Kristínu Sigurjónsdóttur fyrir hönd Trölla.is þar sem fram koma ýmsar hugmyndir að samstarfi við sveitarfélagið. Meðal samstarfshugmynda er þjónusta á sviði auglýsinga og markaðssetningar fyrir sveitarfélagið.

Markaðs- og menningarnefnd þakkar fyrir erindið og þann áhuga sem Trölli.is sýnir samstarfi við sveitarfélagið en telur ekki tímabært að skoða samstarf um markaðssetningu og auglýsingaþjónustu fyrr en markaðsstefna sveitarfélagsins hefur litið dagsins ljós.

Í innsendu erindi frá Trölla eru hugmyndir sem ekki heyra undir málefni markaðs- og menningarnefndar og hvetur nefndin deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að kynna fyrir viðeigandi fagnefnd og koma á framfæri við bæjarráð.

Á sama fundi er lagt til við bæjarráð að setja á stofn vinnuhóp til að vinna markaðsstefnu fyrir sveitarfélagið.

Því er við að bæta, að meðal þeirra hugmynda sem lagðar voru fram, er bein útsending frá fundum bæjarstjórnar. Bæjarráð mun fjalla um það mál.