Listformin eru sterkur miðill í dag, til þess að viðhalda óáþreifanlegum menningararfi
Skráning stendur nú yfir á alþjóðlega uppskeruhátíð, ráðstefnu í Hofi og vinnustofu í hátíðarsal Háskólans á Akureyri, í lok maí. Viðburðurinn er beint framhald af vel heppnaðri ráðstefnu, Huldufólk og álfar í heimabyggð sem haldin var fyrir sléttu ári síðan, en uppselt varð á þann viðburð.
Að þessu sinni verður einnig boðið upp á kaup á streymis miða, þar sem mikilvægt þykir að gefa öllum, hvar sem er á landinu og eða heiminum, tækifæri til þess að taka þátt í umræðum og geti lagt til sína þekkingu og skoðun. Það er einnig tilvalin leið til þess að styrkja framgang samstarfsins og framtakið í heild sinni.
Menningarfélag Akureyrar – International Conference – Tales of the Nature Spirits – Velja miða
Mikilvægt er að listamenn, þjóðfræðingar, kennarar, ferðaþjónustuaðilar og almennir náttúruunnendur skrái sig til leiks, hlusti á hvernig þessi þekking birtist, hvernig hún nýtist og hvernig er hægt að miðla henni á fjölbreyttan hátt til þess að skapa aukin lífsgæði, ný tækifæri er snúa fræðslu, listsköpun, ferðaþjónustu, auk útflutnings á
þekkingu okkar á skynjun á landi og þjóð.


Allir fyrirlesarar ráðstefnunnar hafa á einhvern hátt unnið með hinn óáþreifanlegan menningararf Íslands og listamenn ráðstefnunnar eiga það sameiginlegt að vilja hafa áhrif á og taka þátt í sérstöðu landisns þegar kemur að söfnun og varðveislu heimilda um náttúruvættina.
Þrír fyrirlesarar ráðstefnunnar eru íslenskir en aðrir koma frá Mongolíu, Kenýa, Tékklandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Einstaka fyrirlesara má kynna sér á heimasíðu Huldustígs Tales of the Nature Spirits 2025 – Huldustígur
Ráðstefnan fer að mestu fram á ensku, en á vinnustofum sem fara fram í hátíðarsal háskólans á Akureyri 1.júní verður sérstaklega boðið upp á umræður á íslensku.
Bryndís Fjóla sem er eigandi Huldustígs ehf. segir að hér á Íslandi sé til mikilvægur þjóðar- og menningararfur sem er einstakur á heimsvísu, sem snýr að því hvernig við skynjum og hlustum á okkar á náttúru og hvernig við höfum miðlað þeirri upplifun mann fram að manni og í bókmenntum, tónlist, myndlist og leiklist í aldanna rás. Það hefur sýnt sig að nágrannaþjóðir okkar vilja gjarnan vita meira um það hvernig við “frumbyggjarnir” höfum varðveitt og treyst á okkar innsæi, hlustað á náttúruna og leyft henni og þeim hulduheimum sem þar birtast, að hafa áhrif á sköpunarkraftinn og um leið hefur náttúran fengið að njóta vafans og traust skapast sem allir aðilar njóta góðs af.
Bryndísi Fjólu finnst sjálfri trúin á tilvist náttúruvætta mikilvæg, ekki bara vegna fegurðarinnar sem hún felur í sér, áhrif á lýðheilsu og umhverfisverndar gildis, heldur einnig vegna þess að það er skemmtilegra að trúa á þá en ekki.
Til að mynda bauð Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í Bretlandi til sérstaks menningarviðburðar í íslenska sendiráðinu í London núna í janúar, þar sem Bryndísi Fjólu og Ingu Lísu Middleton sem er bresk-íslensk listakona, var boðið að halda erindi um þetta málefni. Viðburðurinn vakti mikla athygli og var vel sóttur af sérstökum gestum sendiráðsins sem og af fjölmiðlum í Bretlandi. Umfjöllunarefnið var hvernig trú á álfa og huldufólk hefur haft áhrif á íslenskt samfélag, menningu og listir og hvernig það hefur mótað íbúa landsins,og skynjun þeirra á náttúrunni, og um leið orðið innblástur í listum og menningu. Sérstaklega fannst þeim sem sóttu viðburðinn áhugavert hvernig tenging og samskipti við huldufólk og álfa getur í dag verið verkfæri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Því var haldið á lofti að íbúar Íslands eru einstakir að því leyti að þeir hafa náð að halda vel í skilning á tungumálinu,
menningunni og óáþreifanlega menningararfinum og öllum þeim fjölbreyttu birtingarmyndum sem náttúran býr yfir.

Margar þjóðir hafa þrengt óþarflega að frumbyggjum sínum, bæði hvað varðar varðveislu, náttúru, tungumáli og menningu og þá um leið hefur tapast dýrmæt viska og lífsviðhorf, sem við hér á Íslandi höfum náð að viðhalda með reisn og í dag er nauðsynlegra sem aldrei fyrr að við deilum með umhveiminum hvernig við og okkar nýbúar skynja sig sem hluta af náttúrunni – okkur og náttúrunni til heilla.
Æ algengara er mannfólkið aðgreini sig frá náttúrunni, en við vitum samt að tréð skynjar okkur eins og við getum skynjað það og við vitum hvað gerist í líkamanum þegar við föðmum tré, það er betra fyrir ónæmiskerfið og andlega líðan.
Í framhaldi af þessum menningarviðburði í London, var Bryndísi Fjólu og Ingu Lísu boðið til Danmerkur til NordAtlantens Brygge í Kaupmannahöfn, þar sem þær buðu einnig upp á fyrirlestur um hina huldu þjóð Íslands og birtingarmynd hennar í íslenskri listasögu. Einnig var boðið til viðburðar í Jónshúsi þar sem fyrirlesturinn fór fram á
íslensku, fyrir fullu húsi.
Bryndís Fjóla Pétursdóttir, verkefnastjóri Huldustígs ehf, gekk til samstarfs við Huldu náttúruhugvísindasetur og mun setrið taka þátt í undirbúningi og skipulagningu viðburðarins og aðdraganda
Ráðstefnan sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni, fékk styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands Eystra og Akureyrarbæ, en þeir styrkir gera okkur mögulegt að undirbúa og halda þennan viðburð,“ segir Bryndís Fjóla. “Fleiri styrkumsóknir liggja inni og vonumst við auðvitað til að taka við fleiri styrkjum, því að undirbúningur og viðburður að þessu tagi, er gífurlega kostnaðarsamur.”
Ákveðið var að halda ráðstefnuna í ár á ensku og fá þar með fjölbreytt viðhorf og þekkingu að borðinu, en vinnustofur 1.júní fara fram á báðum tungumálum íslensku og ensku. En samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbær búa þar 1800 einstaklingar af áttatíu og einu þjóðerni, sem er svipað hlutfall sem birtist í flestum byggðarlögum á landsins, sem segir okkur að það er mjög mikilvægt að við séum víðsýn og bjóðum alla
velkomna að borðinu, því það er dýrmætt að íslenskur arfur sé skoðaður í alþjóðlegu samhengi, og lifir áfram í heilbrigðu alþjóðlegu samfélagi“ segir Bryndís Fjóla.
Á vinnustofunni sem fer fram 1. júní hátíðarsal Háskólans á Akureyri verða tekin fyrir fjölbreytt umræðuefni, en þar munu fyrirlesara leiða umræður bæði á íslensku og ensku máli. Þátttakendur eru hvattir til áframhaldandi vinnu og þverfaglegs samstarfs um listsköpun, fræðslu og varðveislu heimilda er snúa að álfum, huldufólk og öðrum náttúruvættum. Gerð verður skýrsla, byggð á niðurstöðum dagsins, sem verður birt í helstu fjölmiðlum innan og utanlands.
Fundarstjóri ráðstefnunnar verður Huld Hafliðadóttir stofnandi Spirit North og STEM á Húsavík.

Myndir/aðsendar