Heiðveig María Einarsdóttir sem tilkynnti 30. maí síðastliðinn, að hún ásamt hópi fólks ætli að bjóða sig fram í stjórn Sjómannafélags Íslands var stödd í Vestmannaeyjum yfir sjómannahelgina. Þar lauk helginni með því að Heiðvig María hélt hátíðarræðu sem lesa má í heild sinni hér að neðan.

“Góðir hátíðargestir, sjómenn og fjölskyldur. Innilega til hamingju með daginn okkar, í dag er sjómannadagurinn, dagurinn er lögskipaður frídagur okkar sjómanna og hefur verið það í rúmlega 30 ár. Hins vegar má rekja uppruna dagsins allt til ársins 1938, samkvæmt gömlum heimildum var stofnað til dagsins til þess að efla samstöðu sjómanna á sínum tíma.

Samstaða – hvað er það ? Það er jú þegar við stöndum saman og erum saman einhuga um eitthvað tiltekið atriði. Það hefur heldur betur reynt á samstöðu í gegnum tíðina hjá sjómönnum, þá skiptir ekki máli hvort við erum að tala um almenn kjör okkar, öryggismál, hvíldartíma, aðgerðir stjórnvalda eða hvað annað.

Ég fullyrði að engin önnur stétt hér á þessu landi eigi sér eins sterkar og rótfastar tengingar inn í samfélagið allt eins og stétt sjómanna. Við erum öll á einn eða annan hátt einhvern veginn tengd sjómanni í nærumhverfi okkar og þekkjum líklega flest til nokkurra slíkra fjölskyldna þá sérstaklega kannski í bæjarfélagi eins og hér í Vestmannaeyjum.

Á sama tíma er umhverfi stéttarinnar gríðarlega viðkvæmt fyrir ytri áhrifum og ekkert er öruggt í þessu akkúrat ekki neitt. Blessuð auðlindin er jú þarna en það er bara svo ótal margt annað sem spilar inn í, þá er nóg að nefna dæmi eins og álögur stjórnvalda sem oftast er klambrað á með einu pennastriki og svosem allar álögur stjórnvalda í hvaða formi sem þær eru – og eru þær álögur yfirleitt í takt við þær pólitísku áherslur sem eru við lýði hverju sinni. Svo hafa náttúruhamfarir eins og eldgos alveg hellings áhrif og þarf ég varla að minna þetta samfélag hér á áhrif Heimaeyjargossins á verstöðina, ástkær krónan okkar sem virðist sveiflast villt og galið í takt við hitt og þetta. Loðnubrestur – þar fór það þetta árið, við vonum bara það besta næst.

Allt framangreint og líklega meira til hefur jú allt áhrif á það sem við köllum niðurstöðu starfa okkar, eða með öðrum orðum laun okkar.
En hvað er það að vera sjómaður og af hverju erum við að þessu , jú það er bara helvítis hellingur – að staldra við og skoða nokkrar staðreyndir hjálpar okkur kannski að skilja hvað og hvers vegna – eða kannski ekki. Skoðum aðeins dæmi um háseta og almennan sjómann.

Í góðum félagsskap í Vestmannaeyjum

Meðalvinnuvika háseta er rúmlega 80 klst, samanborið við tæplega 40 klst á almennum vinnumarkaði. Háseti fer ekki heim í bælið sitt að vinnutíma loknum, háseti þarf að borða það sem fyrir hann er lagt – þá er alveg sama hvort honum líkar maturinn eða ekki, hann þarf að gera ráð fyrir því að vera ræstur á frívöktum sé mikið fiskirí. Háseti deilir klefa með allt að þremur öðrum einstaklingum, háseti deilir oft salerni og sturtuaðstöðu með 10–20 öðrum, ég er nokk viss um að margir myndu setja það eitt fyrir sig. Meðaltímakaup háseta er á bilinu 2.000–6.500 krónur, þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða dag- eða yfirvinnukaup, hann sjálfur hefur ekkert um það að segja. Skipstjórinn, útgerð, Hafró, fiskverð á markaði og kvótastaða á hverjum tíma ræður því hvað er fiskað hverju sinni, í hvaða magni og hvert það er selt og hverjum það er selt.
Til viðmiðunar er dagvinnukaup sérfræðings hjá ríkinu á bilinu 4–5.000 kr. og er þá átt við sérfræðing með grunnháskólamenntun. Laun hjá ríki eru oftar en ekki talin lægri en á almennum vinnumarkaði.

Háseti rúllar sólahringnum á 6- 16 tíma vöktum og hvílist á frívöktum, þá skiptir ekki máli hvort er dagur eða nótt. Ef háseti er veikur um borð þá mætir hann samt yfirleitt í vinnuna. Öll afkoma hásetans byggist á því sem fiskast hverju sinni og þeim verðum sem eru í gangi á þeim tíma. Afkomutrygging sjómanna er á pari við lágmarkslaun í landi. Þrátt fyrir það er fullur mánuður á almennum vinnumarkaði rúmlega 170 vinnustundir, háseti vinnur rúmlega 320 vinnustundir í einum túr ef miðað er við mánaðarúthald. Aflaverðmæti er háð gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni og því geta laun háseta verið 30-40% lægri á lágu gengi þrátt fyrir að verð á afurðum sé hátt.

Enn eru samt til karlar og reyndar konur einnig þó í minnihluta séu sem kjósa sér þennan starfsvettvang, ég gerði það, foreldrar mínir og systkini gerðu það líka og klárlega eru nokkrir hausar hér sem hafa gert það líka.
Á bak við hvern sjómann er yfirleitt fjölskylda, mæður, feður, börn, eiginkonur, eiginmenn, kærastar, kærustur og svo mætti lengi telja.
Það er oft erfitt að skilja hvers vegna fólk velur sér þennan vettvang en það er eins og með margt annað, þetta starf er alveg eins gott og mikilvægt og hvert annað og því ættum við ekki að bera virðingu fyrir því? Við veljum sjálf það sem við viljum og það ber að virða.

Þetta er starf gefur líka að mína mati svo miklu miklu meira heldur en salt í grautinn fyrir fjölskyldur þeirra – það er nefnilega pínu þannig að þó svo að sjómönnum hafi fækkað í gegnum árin þá eru sjómenn enn þeir sem skila langmestu tekjum til ríkisins af þessari dásamlegu auðlind okkar, það er af þeim tekjuskatti sem við greiðum af launum okkar til ríkisins -ekki auðlindagjald, ekki tekjuskattur útgerða og heldur enn og aftur af tekjuskatti sjómanna.

Þar af leiðandi get ég ekki skilið þetta öðruvísi en það að við sjómenn erum hreinlega bara lífsnauðsynlegir þeim samfélögum sem við störfum og búum í. Framlag okkar hlýtur því að tryggja innviði samfélagsins. Því er enn mikilvægara en oft áður að ná saman um þetta starf, skilyrði þess og kjör þess. Þar sem við erum nú dottin inn í árið 2019 þá ætla ég að leyfa mér að gera þá kröfu á okkur sjómenn á okkur öll og þá líka í leiðinni viðsemjendur okkar, það er vinnuveitendur okkar og samfélag okkar að við sýnum samstöðu okkar í verki með því að tala saman eins og vinna saman að okkar sameiginlegu hagsmunum.

Auðlindir okkar í hafinu er kannski orðin klisjukenndur farsi og orð eins og auðlindagjald, afkoma í sjávarútvegi og verðmæti hafsins fara að detta í það að verða fyrir okkur hreinlega eins og umhverfishljóð. Í gegnum tíðina eða allt síðan að ég man eftir mér þá hafa kjaradeilur sjómanna alltaf verið litaðar af gríðarlega mikilli hörku og átökum á milli aðila. Oftar en ekki hefur rekið á land og deilurnar hafa endað með verkfalli og jú oftar en ekki með lagasetningu á verkfall þar sem of mikil verðmæti voru í húfi og því nauðsynlegt að sækja fiskinn hið snarasta, hvort að þau rök hafi haldið vatni hjá löggjafanum má sjálfsagt deila um.

Það er hins vegar alveg á kristaltæru að hvernig sem á þetta er litið þá eigum við öll sameiginlegra hagsmuna að gæta. Við njótum öll góðs af sjómönnum beint eða óbeint. Þar sem við sjómenn fáum greitt eftir hlutaskiptakerfi eða hlutfall af því aflaverðmæti sem við sköpum með sjósókn okkar þá er það klárlega hagur útgerða að aflaverðmæti okkar sé sem allra hæst.

Í raun er þetta samband sjómanns og útgerða algjörlega háð hvort öðru, þá er lítið varið í að stunda sjómennsku án útgerðar og enn minna varið í það að stunda útgerð án sjómanna. Hvernig getur það þá verið að alltaf hreint enn og aftur ár eftir ár verða alltaf gríðarleg átök í kringum samninga á milli þessara aðila ?

Í sinni einföldu mynd þá er þetta algjört win win situation svo ég leyfi mér nú að sletta. Ég er búin að ákveða fyrir þó nokkru síðan að ég ætla að leggja mitt af mörkum til þess að reyna að ná sátt fyrir alla aðila í þessi mál. Ég ætla að misnota tækifæri mitt hér í dag og biðla til ykkar sjómanna til ykkar sem samfélags, til ykkar sem útgerðarmenn og til ykkar sem einstaklinga að líta inná við og hugsa hvernig þið getið lagt ykkar af mörkum til þess að ná fram þessari sátt og þessari margumtöluðu samstöðu okkur öllum til heilla þegar upp er staðið.

Kæru hátíðargestir enn og aftur innilega til hamingju með daginn.

Komum fagnandi og sameinumst sem eitt og njótið dagsins.”