Í vikunni fékk ég í hendur endurútgáfuna af „Svona var á Sigló“ diskunum sem komu út á árunum 1999 og 2004, en áður hafði mér borist USB lykillinn sem inniheldur sama efni auk tveggja myndbanda sem aukaglaðnings. Lög og ljóð sem hafa tengingar við síldarbæinn eru þarna aftur rauði þráðurinn í spilverkinu og eins og áður eru flest lögin vel þekkt og hafa verið það um árabil, en einhver þeirra munu samt hafa hljómað sem ný í eyrum sveitunga minna. Sum hafa verið hljóðrituð margoft og af ýmsum listamönnum en önnur aldrei. Í þeim öllum mátti þó finna þann tón, texta, höfund eða flytjanda sem réttlætir veru þeirra þarna.
Í mörg ár hefur þetta efni verið ófáanlegt með öllu og því þótti tímabært að huga að endurútgáfu þess. En þrátt fyrir að lögin hafi verið orðin tuttugu talsins, þá hefði alveg verið hægt að halda útgáfuröðinni áfram, því meira efni verður til eftir því sem árin líða auk þess sem annað eldra kemur upp í hugann.
Fjórum nýjum upptökum hefur verið bætt við þessa útgáfu, en meira efni komst því miður ekki fyrir á disknum þó af nægu væri að taka. Von mín er að það sem hér er boðið upp á megi verða þeim til ánægju sem á hlýða en einnig er þetta öðrum þræði gert bænum okkar til dýrðar og vegsemdar, því okkur þykir vænt um hann og viljum veg hans sem mestan.
Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa gjörva hönd á framtakið, en þeir skipta þó nokkrum tugum. Ef mér leyfist þó að þakka einum manni fremur en öðrum þá er það upptökumaðurinn, sá fjölhæfi hljóðfæraleikari og ágæti samstarfsfélagi Birgir Jóhann Birgisson til margra áratuga, sem hefur á mjög svo óeigingjarnan hátt lagt á sig mikla vinnu, ferðalög og annað erfiði við að koma málum á þann veg sem nú er orðið.
En umræddur Birgir er ekki einungis hljóðfæraleikari, útsetjari og upptökumaður, heldur er hann einnig maðurinn á bak við myndavélina á myndbandinu „Vodkafamelý“ sem hér má sjá, þar sem Steini Bertu og Sveinsson sýnir hreint ótrúlega leikræna hæfileika.
Takk Biggi, takk Steini og takk hljómsveitin Kargo.
Mynd/skjáskot úr myndbandi