Trölli.is birtir af og til gamlar fréttir af vefnum Siglo.is. Hér kemur frétt frá 3. júní 2011, Finnur Ingi Kristinsson ritaði fréttina og lagði til myndir.

Bjart framundan í Fjallabyggð – Gamla fréttin

Ferðatengd þjónusta er í mikilli uppsveiflu í Fjallabyggð. Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt sitt af mörkum við þessa uppbyggingu og lýtur út fyrir að bjart sé framundan í þessari iðn.

Egill Rögnvaldsson skrifar góða grein sem birt var á Siglo.is í gær þar sem hann ræðir uppbyggingu á ferðamennsku í Fjallabyggð. Kemur hann þar inná þá þróun sem átt hefur sér stað á síðastliðnum árum.

Fjöldi hátíða hafa skotið upp kollinum sem tengjast menningartengdum ferðaiðnaði. Má þar helst nefna Síldarævintýrið og Þjóðlagahátíðina á Siglufirði og Blúshátíðina á Ólafsfirði.  Í dag eru allar þessar hátíðir í höndum einkaaðila eða félagasamtaka sem leggja metnað sinn í að gera þær sem glæsilegastar. Söfnin á Siglufirði hafa blómstrað og eru marglofuð og heimsþekkt. Galleríum fjölgar og bjóða þau uppá mikið úrval listmuna. Skíðasvæðið hefur verið í miklum uppgangi síðastliðin tvö ár og nú síðast hefur Hótel Brimnes ráðist í glæsilegt framtak við að markaðssetja Fjallabyggð sem áfangastað fyrir fullaskoðunarunnendur og göngugarpa.

Framtíð Fjallabyggðar er nú í mótun og áherslur einkageirans hafa þróast á þann veginn að íbúar bæjarfélagsins þurfa ekki lengur að treysta einvörðungu á sjávarútveginn sem tekjulind. Á komandi árum munu störf tengd ferðaþjónustu fá aukið vægi og fjölga í Fjallabyggð.

Veitingastaðir koma til með að blómstra, gistiheimili og tjaldsvæði fyllast og ýmsir afþreyingamöguleikar skjóta upp kollinum.

Ferðaþjónustu fylgir mikið líf og á komandi árum munu firðirnir tveir reisa sig við og iða af mannlífi.

.