Vörugjald á nýja rafmagnsbíla verður fellt niður samkvæmt tillögu fjármála- og efnahagsráðherra til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Það sama á við um aðra bíla sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku, eins og metani eða vetni. Tillagan lýtur að breytingum á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026. Samhliða er gert ráð fyrir að vörugjald hækki á nýja bíla sem ganga að hluta eða öllu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti. Einnig er lagt til að regluverk verði einfaldað og undanþágum fækkað. Markmið breytinganna er að skapa varanlegan hvata til að velja ökutæki sem nota hreina innlenda orkugjafa í stað ökutækja sem ganga fyrir innfluttri orku.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra 

„Við erum að stuðla að því að það verði hagkvæmara að kaupa bíla sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku í stað innfluttar orku. Ávinningurinn af því er ótvíræður fyrir efnahag landsins og það hjálpar okkur líka að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum.“

„Almenningur hefur sett bíla sem ganga fyrir innlendri orku í forgang. Það sést á því að meira en helmingur allra nýskráðra bíla á heimilum landsmanna á undanförnum árum hafa verið rafmagnsbílar. Með þessari breytingu sköpum við enn skýrari hvata fyrir heimili og fyrirtæki til að velja bíla sem ganga fyrir íslenskri orku.“

Breytingar á vörugjaldi

Tillagan gerir ráð fyrir að hlutfall vörugjalds breytist með eftirfarandi hætti:

  • Vörugjald á ökutæki sem ganga fyrir rafmagni, metani og vetni verður fellt niður.
  • Losunarviðmið útblásturs á ökutækjum sem losa koltvísýring, CO2, verður hert.
  • Vörugjald af ökutækjum sem áður báru 13% vörugjald hækkar í 20%. Hér undir falla einkum ýmiskonar vinnuvélar og ökutæki til sérhæfðra nota sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, t.a.m. kranabifreiðar, dráttarbifreiðar og tengivagnar.
  • Vörugjald af ökutækjum sem áður báru 30% vörugjald hækkar í 40%. Hér er einkum um að ræða minni hópferðabifreiðar, bifhjól og fjórhjól.
  • Einföldun á regluverki með fækkun undanþága.

Tillagan gerir ráð fyrir að tekjur af vörugjaldi á ökutæki aukist um 7,5 milljarða króna árið 2026. Ef markmið breytinganna nást og hlutfall nýskráðra umhverfisvænna ökutækja eykst á kostnað ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti má gera ráð fyrir lækkandi tekjum á næstu árum samhliða orkuskiptum.

Einfaldara og skilvirkara kerfi

Eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar er að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni. Tillögurnar miða að færri sértækum ívilnunum, auknu samræmi og jafnræði í álagningu, sem og fækkun undanþága. Hvatar fyrir orkuskipti verða jafnframt einfaldari með niðurfellingu vörugjalds á rafmagnsbíla.

Almenningur forgangsraðar hreinorkubílum

Breytingarnar hafa engin áhrif á þau ökutæki sem nú þegar eru í notkun þar sem vörugjald leggst aðeins á ökutæki við innflutning til landsins og framleiðslu innanlands. Á síðustu árum hefur um helmingur nýskráðra bíla almennings verið rafmagnsbílar en einungis um fimmtungur verið dísil- eða bensínbílar, og á þessu ári er hlutdeild rafmagnsbíla hjá almenningi komin yfir 60%. Af þessum ástæðum er gert ráð fyrir að áhrif á almenning og vísitölu neysluverðs verði takmörkuð.

Með því að fella niður vörugjald á umhverfisvæna bíla líkt og rafmagnsbíla er stuðlað að því að þessi jákvæða þróun haldi áfram. Þannig mun sífellt stærri hluti bílaflotans ganga fyrir hreinni íslenskri orku sem er bæði hagkvæmara fyrir almenning, styrkir þjóðarbúið og styður við markmið Íslands í loftslagsmálum.

Spurt og svarað

Hvers vegna er verið að ráðast í þessar breytingar?

Þessi breyting á vörugjaldi ökutækja snýst um þrennt:

– Í fyrsta lagi er skapaður skýr hvati til að velja nýja bíla sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku.

– Í öðru lagi er regluverkið einfaldað og undanþágum fækkað þannig að eitt gangi yfir alla.

– Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins aukist tímabundið sem er mikilvægt því að á næstu árum þarf að tryggja fjármögnun til að standa að umfangsmiklum og nauðsynlegum umbótum á vegakerfinu.

Hvaða áhrif hefur þetta á almenning?

Um er að ræða skattkerfisbreytingu sem miðar að því að tryggja hvata til kaupa á bílum sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Síðastliðin ár hafa íslensk heimili valið rafmagnsbíla umfram bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Meira en helmingur nýskráðra bíla heimilanna undanfarin ár hafa verið rafmagnsbílar.

Vörugjöld lækka vegna kaupa á bílum sem ganga fyrir innlendri orku en hækka vegna kaupa á bílum sem ganga fyrir innfluttri orku eins og bensín og dísilolíu.

Með breytingunum á vörugjaldinu er verið að laga kerfið að kaupmynstri heimilanna. Fyrir liggur að almenningur hefur sett rafmagnsbíla í fyrsta sæti. Þeir eru hagkvæmari í rekstri og geta sparað heimilum verulegar fjárhæðir. Tölur um nýskráningar síðustu árin sýna að meira en helmingur allra nýrra bíla sem heimilin hafa keypt eru rafmagnsbílar, en á þessu ári er hlutfall nýskráðra rafmagnsbíla hjá almenningi komið yfir 60%. Á eftir koma bílar sem ganga að hluta fyrir rafmagni en dísil- og bensínbílar reka lestina.

Hvað felst í fækkun undanþága í breytingunum?

  1. Í stað upptalningar á tilteknum tegundum ökutækja í lögunum er lagt til að undanþága frá vörugjöldum taki til allra vélknúinna ökutækja, eins og þau eru skilgreind í umferðarlögum, sem ganga fyrir metani, rafmagni eða vetni.
  2. Sérstök undanþága fyrir sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól er felld brott. Slík ökutæki eru því felld undir almennu regluna.
  3. Felld út sérákvæði varðandi leigubíla, ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga ferðamanna. Þannig taka vörugjöld mið af bifreiðinni sjálfri en ekki notanda hennar.
  4. Ökutæki eldri en 40 ára, þ.e. fornbílar sem fluttir eru til landsins til nýskráningar, greiða nú 13% vörugjald en munu með breytingunni falla undir almennu regluna óháð aldri.
  5.  Með því að setja eina meginreglu þar sem að ökutæki sem ganga fyrir rafmagni greiði ekki vörugjöld eru lögin einfölduð og ýmis sérákvæði felld brott.

Hvers vegna eru vörugjöld lækkuð á rafmagnsbíla?

Með því að lækka gjöldin á rafmagnsbíla eru áhrif á almenning og verðbólgu lágmörkuð. Verðbólgan er tengd neyslukörfu almennings sem kaupir helst rafmagnsbíla. Gert er ráð fyrir að breytingarnar hafi í för með sér að vísitala neysluverðs hækki einungis um 0,1%.

Með því að afnema vörugjöld á rafmagnsbíla er því verið að einfalda kerfið á sama tíma og stuðlað er að orkuskiptum.

Mynd/Hari