Eftir sex ára hlé snýr íslenska indíhljómsveitin Youyou aftur á sjónarsviðið með nýju lagi sem ber heitið „Towns“. Með sveitinni að þessu sinni er Biggi Nielsen, einn reyndasti trommari landsins og vel þekkt nafn í íslenskri tónlistarsenu.
Lagið á sér langa sögu og var grafið upp úr lagasafni Youyou að frumkvæði Bigga Nielsen, sem lengi hefur lagt áherslu á að klára lög áður en haldið er áfram í nýjar hugmyndir. Nú er Towns loksins komið í loftið og aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum — og jafnframt komið í spilun á FM Trölla.
Tónlist Youyou einkennist af afslappaðri og melódískri indítónlist, en í Towns bætast við skýr kántríáhrif. Þar koma einnig við sögu Sigurgeir Sigmundsson á lap steel og Friðrik G. Sturluson á bassa, báðir úr hinni rómuðu kántrýhljómsveit Klaufum, sem gefur laginu hlýjan og lífrænan blæ.
Towns er rólegt og vel mótað lag sem sameinar ólíka strauma íslenskrar tónlistar á náttúrulegan hátt og markar kærkomna endurkomu Youyou eftir langt hlé.
Flytjendur:
- Snorri Gunnarsson – söngur, gítar
- Guðmundur Annas Árnason – söngur, píanó
- Valur Freyr Einarsson – gítar
- Kristinn Jón Arnarson – andleg leiðsögn
- Biggi Nielsen – trommur
- Sigurgeir Sigmundsson – lap steel
- Friðrik G. Sturluson – bassi
Upptaka: Valur Einarsson og Snorri Gunnarsson
Hljóðblöndun: Gísli Stefánsson
