Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í dag fyrstu skóflustunguna að 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Það markar upphaf að framkvæmdum við bygginguna en verktakar hefjast nú handa við að undirbúa byggingarreitinn. Verklok eru áætluð í lok árs 2022.

„Við stöndum á merkum tímamótum í dag. Við erum að hefja byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu sem getur þjónað millilandaflugi en höfum einnig tryggt fjármagn fyrir nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Grunnur er því lagður að öflugri ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi og fjölmörg ný störf verða til við framkvæmdir við flugstöð og flughlað. Tímasetningin á þessum fjárfestingum er góð því það skiptir miklu máli fyrir íbúa á Norður- og Austurlandi að vera vel í stakk búnir að taka á móti ferðamönnum að nýju þegar Covid-tímabilið er afstaðið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. „Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á að efla innanlandsflug og að fjölga fluggáttum inn í landið til að efla ferðaþjónustu um land allt. Það gleður mig að sjá þá miklu áherslu sem ég hef lagt á flugsamgöngur skila sér í raunverulegum framkvæmdum og raunverulegum framförum.“

„Það er gleðiefni að sjá hilla undir löngu tímabærar breytingar á flugstöðinni og í dag er formlega hafið nær tveggja ára framkvæmdatímabil sem verður fljótt að líða,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Óneitanlega mun það setja svip sinn á framkvæmdirnar að þetta er flugvöllur í fullum rekstri og þegar best lét fyrir heimsfaraldurinn voru á bilinu 10-12 flug á dag frá Akureyri. Öflugur hópur starfsfólks á flugvellinum, undir forystu Hjördísar Þórhallsdóttur flugvallarstjóra, mun tryggja gott ferðalag.“

Aðstaða fyrir toll og lögreglu

Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Þegar framkvæmdum við hana lýkur verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verður þá 2.700 fermetrar.

Hönnun byggingarinnar var boðin út í fyrrasumar og urðu Mannvit og Arkís hlutskarpastar og hafa síðan þá unnið að hönnun og útfærslu. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist í haust þegar byggingarreiturinn er tilbúinn og útboðsferli er lokið, en útboðsgögn verða auglýst á útboðsvef 28. júní næstkomandi.

Mikilvæg skref í flugmálum

Í ávarpi sínu við þetta tækifæri í flugstöðinni á Akureyri í dag sagði ráðherra að stór og mikilvæg skref í flugmálum hafi tekin á kjörtímabilinu. Alþingi hafi samþykkt fyrstu flugstefnu Íslands – í rúmlega hundrað ára sögu flugs á Íslandi – en í henni væri m.a. sérstaklega kveðið á um að fjölga fluggáttum inn til landsins til að dreifa ferðafólki um landið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Fjármagn hafi verið tryggt fyrir flugstöðvarbyggingu og flughlað hér á Akureyri í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2024. Í þeirri áætlun væri einnig gert ráð fyrir mikilvægum endurbótum á akbraut á Egilsstaðaflugvelli.

Fyrr á kjörtímabilinu var settur upp aðflugsbúnaður (ILS-búnaður) á flugvellinum á Akureyri sem er mikilvægur öryggisbúnaður fyrir millilandaflug og nýverið var einnig tekið í notkun nákvæmnisaðflug úr norðri (EGNOS) með gervihnattaleiðsögu.

Þá minntist ráðherra á Loftbrú, sem er komin væri á gott flug. “Loftbrú veitir íbúum sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu 40% afslátt af flugfargjöldum til borgarinnar. Markmið verkefnisins er að jafna aðstöðumun íbúa og efla byggðir landsins með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Viðtökur hafa verið mjög góðar en vel yfir tuttugu þúsund flugleggir höfðu verið bókaðir með afsláttarkóða Loftbrúar nú í vor,” sagði ráðherra.