Byrjum á því að skoða þetta samsetta orð, sótt-kví skrifar Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir á vefsíðunni Lifðu núna.

„Sótt“ er gamalt orð sem gefur til kynna tiltekin veikindi, sérstaklega smitandi sýkingarsjúkdóm sem getur borist milli manna (farsótt). Orðið „kví“ er einnig gamalt og var lengi vel notað í sveitum um afgirt svæði eða sérstaka rétt þar sem kindur voru mjólkaðar. Maður gæti því hugsað sér að „sóttkví“ sé tiltekinn staður eða sérútbúin aðstaða, svo sem húsnæði, en svo er ekki endilega.

„Sóttkví“ er miklu fremur ráðstöfun eða framkvæmd. Til dæmis heyrum við nú að sóttvarnateymi ráðleggi eða fyrirskipi einstaklingum að fara í sóttkví, ekki á neinn sérstaklega útbúinn stað heldur að breyta hegðun sinni, víkja til hliðar í samfélaginu, takmarka ferðir sínar, hætta umgengni við annað ósmitað fólk, sinna sérstökum smitvörnum og persónulegu hreinlæti á dvalarstaðnum og fylgjast með hugsanlegum sjúkdómseinkennum. Ráðstöfunin er gerð vegna þess að umræddir einstaklingar hafa verið í nánd við smitaða eða veika einstaklinga, gætu þannig hafa smitast af varasömum sýkli (veiru eða bakteríu) og þar með verið orðnir  „smitberar“. Þetta á yfirleitt aðeins við um einstaklinga sem enn eru einkennalausir og ekki veikir (hafa ekki einkenni).

Margvíslegar sóttvarna- og hreinlætisreglur geta fylgt þessari ráðstöfun, „að fara í sóttkví“. Þær eru of margar til að fjalla um hér og nú og þar að auki gilda mismunandir reglur um sérstakar undirtegundir af sóttkví, svo sem „heimasóttkví“, „vinnusóttkví“ og „úrvinnslusóttkví“.

Rétt finnst mér að lokum að taka fram að sú ráðstöfun, sem á við um veika einstaklinga og þá sem eru með einkenni alvarlegs, smitandi sýkingarsjúkdóms, er nefnd „einangrun“, en henni fylgja mun strangari reglur um aðskilnað frá öðru fólki og sérstaklega um allt það sem „ekki má“.

Mynd/pixabay