Hvernig varð afmælisdagurinn hans Jóns að þjóðarhátíðardegi Íslendinga?
Við héldum þjóðhátíð 2. ágúst 1874. Tilefnið var 1000 ára afmæli byggðar á Íslandi. Danakonungur kom í heimsókn og færði Íslendingum nýja stjórnarskrá. Augnabliksins er enn minnst í miðborg Reykjavíkur með styttunni af Kristjáni níunda á lóð stjórnarráðsins þar sem hann stendur með plaggið merka, upprúllað í færandi hendi. Þennan dag var slæmt í sjóinn og Eyjamenn komust ekki upp á land. Þess í stað var haldin þjóðhátíð í Vestmannaeyjum eins og ennþá tíðkast. Íslendingabyggðir Vesturheims halda þessum sið einnig á lífi.
Sumir vildu gera hátíðarhöldin 2. ágúst að árlegum viðburði og ári síðar var aftur haldið upp á daginn í höfuðborginni. Verslunarfólk gerði daginn að frídegi sínum og við lok 19. aldar varð dagurinn smám saman að fyrsta eiginlega þjóðhátíðardegi Íslendinga. Dagurinn varð hins vegar aldrei að sameinandi tákni fyrir mál málanna á Íslandi á þessum tíma – sjálfstæði og stofnun lýðveldis.
Allir vinir í einn dag
Í upphafi nýrrar aldar voru hatrömm pólitísk átök á Íslandi. Ólíkar stjórnmálafylkingar tókust á um minningu Jóns Sigurðssonar og ýmis samtök skiptust á að halda minningarsamkomur honum til heiðurs í því skyni að tengja sig við ímynd hans. Engum auðnaðist þó að eigna sér Jón. Einhvern veginn var hans persóna hafin yfir málefni líðandi stundar.
17. júní 1911 voru hundrað ár liðin frá fæðingardegi Jóns. Dagurinn var bjartur og sólríkur. Í dagrenningu var afhjúpað nýtt málverk af Jóni sem nemendur Menntaskólans í Reykjavík höfðu safnað fyrir. Einn þeirra, Valtýr Stefánsson, átti síðar eftir að skrifa: “Ég hugsaði að þjóðin væri enn sofandi vegna þess að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því hve bjartur, fagur dagur biði hennar, hve fögur veröld birtist henni, þegar hún risi úr rekkju kyrrstöðunnar.”
Haldið var upp á afmæli Jóns um allt land og í hátíðarhöldunum fundu Íslendingar dagsetningu sem sannarlega varð að sameiningartákni og fangaði þann anda framsækni og bjartsýni sem knúði áfram sjálfstæðisbaráttuna. Síðar um daginn var Háskóli Íslands stofnaður og í miðborginni fagnaði mikill mannfjöldi þeim merka áfanga.
Íþrótta- og ungmennafélög landsins voru bæði fjölmenn og virk á þessum tíma og þau tóku daginn upp á sína arma. Á næstu árum voru haldnar ýmsar uppákomur á 17. júní og dagurinn festi sig í sessi sem hátíðleg og óumdeild gleðistund.
Nú fór hins vegar að draga til tíðinda í sjálfstæðisbaráttunni og 17. júní eignaðist keppinaut.
Sameiningartákn þjóðarinnar
Það var því ekki erfið ákvörðun að gera 17. júní að þjóðhátíðardegi. Dagurinn hafði áratugina á undan áunnið sér þann sess að vera hinn augljósi stofndagur lýðveldisins. Afmælisdagur og minning eins manns hafði smátt og smátt fengið nýja og víðari merkingu sem þjóðin gat sameinast um. Minningin um Jón forseta færði okkur því ekki bara þjóðhátíðardaginn heldur einnig vandasama starfslýsingu fyrir mesta embætti hins nýja lýðveldis.
Heimild af vefsíðu Landsbanka Íslands
Ljósmyndir í frétt/ Ljósmyndasafn Siglufjarðar