Á þriðjudaginn var fyrsta smitið vegna Covid-19 greint í Húnaþingi vesta og fóru 57 einstaklingar í sóttkví í kjölfarið.
Þeim fjölgað verulega í gær og eru nú rúmlega 230 einstaklingar í sóttkví eða um 20% íbúa sveitarfélagsins.
Eins og gefur að skilja hefur þetta margvísleg áhrif á samfélagið og mikið álag er víða vegna þessa.
Skert starfsemi er hjá stofnunum sveitarfélagsins og lokað hefur verið fyrir heimsóknir í flestar þeirra.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitastjóri sendi út eftirfarandi fréttatylkynningu í gær.
Við vonum að íbúar sýni þessu skilning, en starfsfólk sveitarfélagsins er boðið og búið að aðstoða eftir fremsta megni í gegnum síma, tölvupósti og í fjarfundi. Uppfærður listi yfir þá þjónustu sveitarfélagsins sem hefur þurft að skerða kemur á heimasíðuna á morgun.
Þessi mikli fjöldi sem er í sóttkví hefur áhrif á fleiri aðila en sveitarfélagið sjálft. Í dag auglýsti KVH að þar þyrfti að skerða þjónustu við íbúa og stytta opnunartíma. Einnig hefur verið mikið álag á starfsfólk kjörbúðarinnar við afgreiðslu pantana en nú eru 130 heimili í sveitarfélaginu í sóttkví. Starfsfólk kjörbúðarinnar hvetur ættingja og vini þeirra sem eru í sóttkví að létta á starfsfólkinu með því að fara í búðina og versla fyrir sína nánustu svo hægt sé að sinna öllum viðskiptavinum skjótt og vel.
Á næstu dögum megum við búast við því að fleiri aðilar þurfi að skerða þjónustu og því reynir á samtakamátt okkar, samstöðu og æðruleysi eins og við höfum svo oft þurft að sýna á undanförnum mánuðum.
Með því að fara að öllu eftir leiðbeiningum stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda ásamt því að sýna almenna skynsemi mun okkur takast að sigrast á þessari áskorun sem og öllum öðrum.