Mikið fannfergi hefur verið að undanförnu á Tröllaskaga.

Svo mikill er snjórinn að aðfluttir segjast nú skilja af hverju svo mörg hús í Fjallabyggð eru tveggja hæða.

Þessu veðurfari hefur einnig fylgt mikil ófærð og oftar en ekki að undanförnu hefur verið ófært um Héðinsfjörð, Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.

Nú hefur norðanáttin gengið niður að sinni og geta þá íbúarnir mokað frá útidyrum og jafnveg gluggum sem fennt hefur í kaf.

Veðurspáin fyrir daginn í dag er hæg breytileg átt og skýjað með köflum eða bjartviðri á morgun. Frost 2 til 12 stig, en vaxandi sunnanátt með éljum við vesturströndina og syðst annað kvöld og dregur úr frosti.

Á föstudag: Gengur í sunnan 13-20 m/s með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands, og sums staðar rigningu um tíma. Þurrt um landið norðaustanvert. Hlýnar með deginum, hiti 0 til 5 stig eftir hádegi. Hægari suðvestanátt vestanlands um kvöldið með éljum og kólnandi veðri.

Á laugardag: Suðvestan 8-15 og él, en snjókoma eða slydda suðaustanlands framan af degi. Vægt frost, en hiti 1 til 5 stig við austurströndina að deginum.

Á sunnudag: Gengur í sunnan storm með snjókomu eða slyddu, en síðar hláka um allt land með talsverðri rigningu sunnan og vestantil. Úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hlýnar í veðri, hiti 2 til 8 stig seinnipartinn.

Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur Ingi Bjarnason af fannferginu í Ólafsfirði.