Marelsúpan – yngri kynslóðin tekur við keflinu
Eitt af því sem einkennir hátíðina er Fiskisúpukvöldið mikla þar sem íbúar Dalvíkurbyggðar bjóða gestum og gangandi að smakka súpu. Í ár verður það að kvöldi föstudagsins 11. ágúst kl. 20:15-22:15.
Rúna Kristín Sigurðardóttir og Haukur Gunnarsson hafa í sjö ár hýst súpu sem kennd er við fyrirtækið Marel enda er hann starfsmaður Marels á Dalvík. Nú getum við greint frá kynslóðaskiptum því yngri starfsmaður Marels á Dalvík, Orri Fannar Jónsson. hýsir nú súpuna ásamt spúsu sinni, Júlíu Ósk Júlíusdóttur, í Skógarhólum 28 á Dalvík. Að venju verður tónlistarmaðurinn Ari í Árgerði Baldursson á staðnum til að skemmta gestum og gangandi.
Marel er stórt fyrirtæki, með yfir 6.000 starfsmenn í meira en 30 löndum. Um 700 starfsmenn eru á Íslandi, flestir í höfuðstöðvunum í Garðabæ en sjö á Dalvík á skrifstofu og litlu þjónustuverkstæði og fjórir á Akureyri.Marel er einn af stærstu styrktaraðilum Fiskidagsins og hefur verið í 17 ár.
Upphaf er rakið til samkeppni meðal starfsmanna Marels og fór Júlli Fiskidagskóngur suður til að velja bestu súpuna. Kokkurinn í höfuðstöðvum fyrirtækisins lagar súpuna sem svo er send norður og má gera ráð fyrir allt að 250 lítrum af Marelsúpu að sunnan í ár!
Allir eru velkomnir að koma og fá sér Marelsúpu og sama gildir auðvitað um alla hina súpustaðina á Fiskisúpukvöldinu.
Mynd/Fiskidagurinn mikli