Þórarinn Hannesson, hann Tóti, hefur gefið út sitt sjöunda sagnahefti sem hvert um sig hefur að geyma 50 gamansögur af Siglfirðingum.
Fyrsta ritið kom út 2009 og segist höfundur ekki hafa átt sérstaklega von á svo langri framhaldsútgáfu – en þakkar það hve ritin öll hafa fengið góðar viðtökur og einnig því hve Siglfirðingar eru skemmtilegir og af nógu söguefni sé að taka.
Allar eru sögurnar vel skrifaðar – af nákvæmni og vandvirkni – og segja má að hver saga sé ekki bara “kapítuli út af fyrir sig” heldur varpar sagnaheildin prýðis ljósi á Siglufjörð og Siglfirðinga fyrr og síðar.
Það er ekki úr vegi að nefna hér einstaka og aðdáunarverða framtakssemi Tóta; meðal annars sívirkur á Ljóðasetri sínu þar sem mörg helstu skáld þjóðarinnar hafa komið fram auk þess sem hann flytur eigin verk í ljóði og söng.
Og ekki má gleyma frumkvæði hans og virkni gagnvart íþróttum barna.
Maður hinnar jákvæðu og skapandi orku!
Texti og myndir: ÖK