Hljómsveitin Brek sendir frá sér ábreiðu af lagi Magnúsar Eiríkssonar, Ef þú ert mér hjá.

Lagið verður leikið á FM Trölla í dag í þættinum “Tíu Dropar” og kemur út þann 13. ágúst á öllum helstu streymisveitum.

Í kjölfar útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu í sumar fór Brek á tónleikaferðalag.

Á tónleikunum fluttu þau sína útgáfu af lagi Magnúsar. Flutningur sveitarinnar á laginu fékk frábærar viðtökur tónleikagesta og var því ekki annað hægt en að hljóðrita það og gefa út.  Heiðra þar með einn af okkar ástsælustu lagahöfundum, Magnús Eiríksson.

Brek eru: 

Harpa Þorvaldsdóttir – söngur og píanó
Jóhann Ingi Benediktsson – söngur og gítar
Guðmundur Atli Pétursson – mandólín og bakraddir
Sigmar Þór Matthíasson – kontrabassi og bakraddir

En auk hljómsveitarmeðlima leikur Þorleifur Gaukur Davíðsson á munnhörpu.

Hljómsveitin Brek gaf út sína fyrstu breiðskífu þann 25. júní 2021. Platan er samnefnd og inniheldur 11 frumsamin lög. Hún kom út bæði á vínylplötu og geisladiski.

Brek gaf út nokkur lög á árinu 2020 og ber þar helst að nefna lagið Fjaran sem ómað hefur á öldum ljósvakans. Sveitin hlaut einnig tilnefningu til Íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir EP plötu sína í flokknum plata ársins, þjóðlagatónlist.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.brek.is