Húsfyllir var þegar Tónlistarskóli Húnaþings vestra fagnaði 50 ára starfsafmæli um liðna helgi.

Stofnun tónlistarskólans má rekja til Steingríms Sigfússonar sem var ættaður frá Kolbeinsá í Hrútafirði en hann kom í Húnaþing vestra 1968 til að æfa bændakór sem koma átti fram á bændahátíð sem haldin var í Víðihlíð það ár, einnig æfði hann kvennakór meðan á dvölinni stóð.  Steingrímur dvaldi hjá Ingibjörgu Pálsdóttur og Sigurði Eiríkssyni á Hvammstanga og vakti það athygli hans hversu mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki byggi á svæðinu og honum fannst sárlega vanta tónlistarskóla til að virkja enn betur þetta hæfileikaríka fólk. Hann ræddi þetta við Ingibjörgu sem varð til þess að hún fór af stað og fékk til liðs við sig oddvita allra sveitarfélaganna í sýslunni sem þá voru 7 talsins og úr varð að sveitarfélögin sameinuðumst um stofnun skólans árið 1969.  Á þessum tíma greiddu sveitarfélögin 1/3 af kostnaði hvers nemenda við skólann,  ríkið greiddi 1/3  og nemendur greiddu 1/3.

Fyrsti skólastjóri tónlistarskólans var Eyjólfur Ólafsson, einnig hafa Einar Logi Einarsson, Guðjón Pálsson, Elínborg Sigurgeirsdóttir og nú Louise Price gengt stöðu tónlistarskólastjóra.  Elínborg Sigurgeirsdóttir hefur lengst allra verið skólastjóri Tónlistarskóla Húnaþings vestra eða 35 ár.

Ingibjörg Pálsdóttir, sem var einn af aðalhvatamönnunum um stofnun skólans, barðist m.a. fyrir því að skólinn eignaðist sitt eigið húsnæði.  Árið 1984 keyptu sveitarfélögin húsið Sólland á Hvammstanga og hefur það hýst starfsemi skólans síðan þá. Margir kennarar hafa kennt við skólann en þó lengst allra, auk Elínborgar, Ólöf Pálsdóttir frá Bessastöðum.

En nú hyllir undir breytingar því eftir tvö ár mun tónlistarskólinn flytja í nýja viðbyggingu við Grunnskóla Húnaþings vestra.  Þá kemst skólinn loksins í sérhannað húsnæði sem lagað er að þörfum skólans og nemendanna sem hann sækja.

Tónlistarskóli Húnaþings vestra hefur skilað mörgu afburða tónlistarfólki sem hefur náð langt í sinni sköpun.  Á afmælishátíðinni komu fram fyrrverandi og núverandi nemendur skólans svo úr varð fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá sem gestir afmælishátíðarinnar fengu að njóta.

Við sama tækifæri færði Menningarsjóður Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu  Foreldra- og vinafélagi tónlistarskólans  rausnarlega gjöf til hljóðfærakaupa, Leó Örn Þorleifsson afhenti fulltrúum félagsins gjöfina.

Ingveldur Ása Konráðsdóttir ávarpaði samkomuna, fyrir hönd sveitarstjórnar, og færði systrunum Ólöfu og Ingibjörgu Pálsdætrum þakklætisvott fyrir þeirra framlag til skólans.  Einnig færði hún Elínborgu Sigurgeirsdóttur virðingavott fyrir hennar mikla og óeigingjarna framlag til skólans og tónlistarsamfélagsins í sveitarfélaginu þau 35 ár sem hún hefur starfað við skólann.  Óhætt er að segja að Elínborg hefur verið ötul í tónlistarstarfi í sveitarfélaginu og margir nemendur lært hjá henni. Hún hefur verið drífandi í störfum sínum og hvetjandi. Elínborg hefur verið dugleg að fá fólk með sér í ýmis verkefni og segja má að hennar starf við skólann, sem og utan hans, hefur haft mikið að segja um hversu öflugt tónlistarlíf er í sveitarfélaginu, kórar, söngleikir, söngvarakeppni og fleira tónlistartengt hefur blómstrað í sveitarfélaginu undir hennar leiðsögn.

Ingveldur lagði einnig áherslu á að góður tónlistarskóli er undirstaða þess að börnin í sveitarfélaginu fái tækifæri til að virkja hæfileika sína og að áhugamál er gríðarlega mikilvægur þáttur í öllum forvörnum og þá kemur tónlistinn sterk inn.  Nú geta börn frá þriggja ári aldri og upp úr sótt tónlistarkennslu þar sem mikið og gott samstarf er bæði við leik- og Grunnskóla Húnaþings vestra. „Það eru mikil forréttindi að geta, á unga aldri byrjað að auka víðsýni og sköpunargáfu barna með því að leyfa þeim að þróa með sér sköpun í tónlist. Það eru alls ekki öll börn sem finna sig í íþróttum en blómstra svo í tónlistarskólanum.“  sagði Ingveldur að lokum.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra skipaði nefnd til að sjá um undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar. Í henni sátu  Jóhann Albertsson, Elín Lilja Gunnarsdóttir og Louise Price. Ingibjörg Jónsdóttir starfaði með nefndinni að undirbúningnum.  Sveitarstjórn færir nefndinni og öllum þeim sem að undirbúningi og framkvæmd komu sem og þeim sem heiðruðu skólann með tónlistaratriðum fyrir þeirra framlag til afmælishátíðarinnar.

Hér má sjá myndir frá afmælishátíðinni.