Einn af þeim fjölmörgu viðburðum sem í boði voru á Siglufirði í liðinni viku var ljósmyndasýning með myndum Hannesar P. Baldvinssonar frá síldarárunum.
Synir hans þeir Björn Hannesson og Jón Baldvin Hannesson áttu veg og vanda að þessari mögnuðu sýningu, en Björn er búinn að skanna safn föður þeirra inn og Jón Baldvin sá um myndvinnslu og prentun.
Undirrituð var alveg heilluð af myndum Hannesar, hafði ég í gegnum tíðina séð eina og eina mynd frá Hannesi en ekki stóran hluta af þessum myndum. Þegar gengið var í gengum sýninguna vakti það athygli mína hvað Hannes hefur haft mikla tilfinningu fyrir myndbyggingu og hver einasta mynd sagði sjálfstæða sögu af því myndefni sem hann tók fyrir hverju sinni.
Björn Valdimarsson tók skemmtilegar myndir á sýningunni af þeim bræðrum við 58 ára gamla mynd sem faðir þeirra tók um 1960 og aðra af þeim Halldóru Jónsdóttur ekkju Hannesar og Brynju Stefánsdóttur við mynd sem tekin var af þeim í símstöðinni í kringum 1960.