Í tilefni af 75 ára afmæli RARIK verður efnt til málþinga í september í Stykkishólmi, á Selfossi, Egilsstöðum og Akureyri, dagana 7. til 13. september.
RARIK býður öllum íbúum Fjallabyggðar sem áhuga hafa á málþingið sem haldið verður í Hofi þriðjudaginn 13.september.
Yfirskrift málþinganna er:
Rafmagnið í lífi okkar – hreyfiafl landsbyggðar til framtíðar
Á málþingunum verður fjallað um orkuskipti og önnur spennandi verkefni sem framundan eru í orkumálum og hlutverk RARIK sem framsækið tæknifyrirtæki í þeim breytingum.
Málþingin verða öllum opin og aðgangur ókeypis. Húsin opna klukkan 16:30 og verður boðið upp á léttar veitingar ásamt lifandi tónlist um leið og fulltrúar RARIK munu spjalla við gesti um helstu verkefni sem unnið hefur verið að á hverju svæði og svara spurningum.
Að því loknu klukkan 17:00 mun Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK hefja málþingin en eftirfarandi frummælendur munu taka til máls:
- Ný tækifæri í breyttri framtíð
Bergur Ebbi rithöfundur og ráðstefnustjóri.
- Afhendingaröryggi og þjónusta
RARIK stendur frammi fyrir hraðri tæknivæðingu samtímans og áskorunum framtíðarinnar með auknum kröfum um gæði rafmagns, sveigjanlega notkun og fyrirsjáanlega þjónustu. Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK. - Orkuskipti og loftslagsmál
Loftslagsbreytingar eru ein mesta áskorun samtímans. Fjallað verður um stöðuna í orkuskiptum frá sjónarhóli RARIK.
Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóri kerfisstýringar RARIK. - Verðskráin í nútíð og framtíð
Það kostar að koma rafmagninu á milli staða. En hvernig er verðskráin ákveðin og hver er munurinn á framleiðslu, sölu og dreifingu? Getur regluverk um raforkumál verið skemmtilegt?
Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, þróunarstjóri nýsköpunar og greininga hjá RARIK. - Konur í orkumálum
Hver er staða jafnréttismála í orkugeiranum? Hver eru tengsl kynjajafnréttis á vinnustað og frammistöðu fyrirtækja og metnaðarfullra skuldbindinga þeirra um sjálfbæra framtíð?
Hildur Harðardóttir, formaður Kvenna í orkumálum og verkefnisstjóri á sviði samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.
Á milli dagskráratriða verða birt stutt myndbrot úr kynningarmyndbandi sem unnið hefur verið í tilefni afmælisins.
Málþing RARIK verða eftirtalda daga:
- 7. september – Hótel Stykkishólmur
- 8. september – Hótel Selfoss
- 12. september – Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum
- 13. september – Hof – Hamrar, Akureyri
Húsin opna klukkan 16:30 með léttum veitingum og dagskrá málþinga hefst klukkan 17:00 og stendur til 18:30.