Nýir vindpokar hafa verið settir upp á flugvellinum á Siglufirði í stað þeirra gömlu sem voru orðnir verulega slitnir. Með þessu er tryggt að nauðsynlegar upplýsingar um vindátt og vindstyrk séu alltaf sýnilegar fyrir þá sem nýta völlinn.

Siglufjarðarflugvöllur er skráður lendingarstaður og einn af sextíu sem skráðir eru í Flugmálahandbók AIP-Ísland. Leyfið fyrir vellinum var endurnýjað í desember á síðasta ári, og á sama tíma fékk Slökkvilið Fjallabyggðar það hlutverk að sinna eftirliti og þjónustu með vellinum.

Í tilkynningu Slökkviliðs Fjallabyggðar kemur fram að vindpokarnir gegni mikilvægu hlutverki í öryggismálum flugvallarins þar sem þeir gera kleift að meta bæði vindátt og vindstyrk á svæðinu. Settir voru upp tveir vindpokar, annar að sunnanverðu og hinn að norðanverðu við flugbrautina.

Mynd: Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsmaður, við uppsetningu nýrra vindpoka.

Myndir: facebook / Slökkvilið Fjallabyggðar