Á 898. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar voru lagðar fram ályktanir aðalfundar Framfarafélags Ólafsfjarðar, þar sem fjallað er um kalt vatn, heitt vatn, fiskeldi í Eyjafirði og samgöngumál á svæðinu.

Framfarafélagið bendir á að upp hafi komið skortur á köldu vatni í Ólafsfirði og hvetur til þess að gripið verði til aðgerða. Bæjarráð tekur undir áhyggjur félagsins og segir þegar hafið ferli við upplýsingasöfnun vegna hættumats vatnsveitunnar.

Varðandi heitt vatn felur bæjarráð bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga frá Norðurorku, bæði um stöðu mála og framtíðaráætlanir, enda telur ráðið mikilvægt að liggi skýrt fyrir hvernig ofanjarðarauðlindir verði nýttar í Ólafsfirði til lengri framtíðar.

Í ályktunum Framfarafélagsins er einnig fjallað um fiskeldi í Eyjafirði og mikilvægi þess að niðurstaða um slíka starfsemi liggi fyrir. Bæjarráð ítrekar að bæði ráðið og bæjarstjórn hafa áður fjallað um málið og taka undir að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið taki ákvörðun sem fyrst, svo þeir aðilar sem hafa hug á uppbyggingu í sveitarfélaginu fái skýr svör um næstu skref.

Að lokum minnir Framfarafélagið á mikilvægi samgöngubóta á utanverðum Tröllaskaga með jarðgöngum á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Mynd/Guðný Ágústsdóttir