Dómsmálaráðherra kynnti í gær skýrsluna Ísland í örum vexti; Skýrsla starfshóps um þróun í útgáfu dvalarleyfa og misræmi við önnur Norðurlönd. Skýrslan er afrakstur starfshóps sem ráðherra setti á vormánuðum til að fara yfir gildandi reglur og framkvæmd dvalarleyfa á Íslandi.

„Kerfið okkar verður að byggja á stefnu en ekki stefnuleysi. Skýrslan staðfestir að núverandi kerfi er stefnulaust og getur ekki tekist á við þá þróun sem hefur orðið síðustu ár. Hún staðfestir einnig að íslenskar sérreglur eru víða og misræmi er mikið. Við erum meðvituð um að aðflutningur fólks til landsins hefur knúið hagvöxt áfram síðustu ár og nú er verkefnið að auka hagvöxt á hvern íbúa,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.

Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur og meðlimur starfshópsins kynnti niðurstöður

Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur og meðlimur starfshópsins kynnti niðurstöður

Markmiðið með vinnu hópsins var að fá heildstæða yfirsýn yfir þróun dvalarleyfa síðustu ár, m.a. með hliðsjón af þeim markmiðum sem nefnd eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að gæta skuli samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýsluna hvað þessi mál varðar. Þá var hópnum falið að leggja fram tillögur að úrbótum í málaflokknum.

Fólksfjölgun langtum meiri en í nágrannalöndum

Í skýrslunni kemur fram að fjölgun erlendra ríkisborgara hafi verið einn stærsti drifkraftur fólksfjölgunar á Íslandi undanfarin ár. Fjöldi dvalarleyfishafa, þ.e. einstaklinga með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, hefur nær fimmfaldast frá 2017 og hefur Ísland veitt hlutfallslega fleiri ný dvalarleyfi en öll önnur Norðurlönd eftir 2019, sérstaklega þegar kemur að alþjóðlegri vernd og námsleyfum. Þá segir að dvalarleyfishafar séu oftar í efnahagslega viðkvæmri stöðu en Íslendingar og að þörf sé á markvissari aðlögun og inngildingu.

„Starfshópurinn bendir á 25 atriði sem telja má sem misræmi á við Norðurlöndin í löggjöf og framkvæmd í tengslum við dvalarleyfin – misræmi sem leiða mun til þess að meiri aðsókn verður í dvalarleyfi á Íslandi til lengri tíma og viðkvæmir hópar verða útsettari fyrir hagnýtingu en ella. Það er gott að fá þessa skýrslu og nú getur ríkisstjórnin gripið til markvissra aðgerða, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar,“ segir ráðherra.

Samkvæmt skýrslunni eru víða frávik í málaflokki dvalarleyfa og misræmi miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum og að brýn þörf sé á úrbótum.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að:

  • Fjöldi dvalarleyfishafa hefur vaxið gríðarlega
  • Samsetning dvalarleyfa á Íslandi er frábrugðin Norðurlöndunum
  • Stór hluti þriðju ríkis borgara er í viðkvæmri efnahagsstöðu
  • Dvalarleyfakerfið er mun opnara en á Norðurlöndum
  • Skortur er á samræmdu eftirliti milli stofnana

Hópurinn bendir á 25 atriði sem telja má sem misræmi í íslenskri framkvæmd og löggjöf samanborið við önnur Norðurlönd, m.a. varðandi eftirlit, framfærslukröfur, fjölskyldusameiningu og fleira. Hópurinn hvetur stjórnvöld til að marka sér stefnu um afnám íslenskra sérreglna til að koma í veg fyrir að viðkvæmar hópar verði útsettir fyrir hagnýtingu og innflæði þriðju ríkis borgara verði mun meira en til annarra Norðurlanda til framtíðar.

Fjölbreyttar tillögur

Starfshópurinn telur að brýn þörf sé á úrbótum í málaflokki dvalarleyfa. Meðal tillagna hópsins má nefna:

  • Sameining útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa hjá Útlendingastofnun til að bæta yfirsýn og skilvirkni.
  • Innleiðing mats á aðflutningsáhættu, líkt og tíðkast á Norðurlöndum.
  • Stofnun skilríkjamiðstöðvar til að sannreyna uppruna og áreiðanleika gagna.
  • Auknar framfærslu- og húsnæðiskröfur í samræmi við norræna framkvæmd.
  • Endurskoðun námsleyfa, m.a. kröfur um framfærslu, fjölskyldusameiningu, námsárangur og aðgang að vinnumarkaði eftir nám.
  • Aukin notkun skortslista og regluleg uppfærsla þeirra, skýrari hæfniskröfur og aukið eftirlit með bakdyraleiðum inn á vinnumarkaðinn.
  • Endurskoðun reglna um fjölskyldusameiningu, þar á meðal endurskoðun á aðgangi foreldra eldri en 67 ára og styrking úrræða til að taka á hugsanlegri misnotkun dvalarleyfa maka.

Vinna hafin við heildarendurskoðun

Markviss vinna hefur átt sér stað í málefnum útlendinga og ráðherra er með fimm frumvörp á þingmálaskrá fyrir núverandi þing.

Ráðherra hefur kynnt drög að frumvarpi um breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Með frumvarpinu er lagt til að afnema íslenskar sérreglur í flokki námsleyfa og samræma framkvæmd á við önnur Norðurlönd í tengslum við útgáfu atvinnu- og námsleyfa. Þá er í frumvarpinu lagt til að útgáfa tímabundinna atvinnu- og dvalarleyfa verði færð í einn farveg hjá Útlendingastofnun, en nú er hún á forræði tveggja stofnana sem er einstakt á Norðurlöndum. Þá hefur ráðherra einnig boðað heildarendurskoðun á fyrirkomulagi dvalarleyfa á vorþingi.

„Markmiðið er að tryggja skýra og skilvirka stjórn á landamærunum. Umræðan má ekki ráðast af öfgum né pólitískum skotgröfum, heldur af ábyrgð og raunhæfum aðgerðum. Nú er kominn tími til að taka þessi skref – og það er einmitt það sem ég er að gera. Um leið ber okkur skylda til að tryggja að þeir sem setjast hér að fái sanngjörn tækifæri til að fóta sig og ná árangri. Þau frumvörp sem ég mun leggja fram í haust eru mikilvæg skref í að tryggja velferð og stöðugleika fyrir íbúana til framtíðar.“

Hópinn skipuðu þau Edda Bergsveinsdóttir, formaður, frá dómsmálaráðuneytinu, Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur, Þórhildur Ósk Hagalín frá Útlendingastofnun. Varamennvoru Arnar Sigurður Hauksson frá dómsmálaráðuneytinu og Anna Lísa Ingólfsdóttir frá Útlendingastofnun.

Kynningu frá fundinum í dag má nálgast hér

Myndir/aðsendar