
Íslenska Bocuse d´Or teymið
Sigurður Helgason þjálfari, Marlís Jóna Karlsdóttir aðstoðarmaður, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir Bocuse d’Or kandídat Íslands og Viktor Örn Andrésson er í dómnefnd keppninnar sem fulltrúi Íslands.
Mynd: Þráinn Freyr Vigfússon
Snædís Xyza Mae Jónsdóttir verður næsti keppandi Íslands í Bocuse d’Or forkeppninni sem fram fer í Marseille dagana 15. og 16. mars 2026. Markmiðið er skýrt. Að tryggja Íslandi sæti í lokakeppninni sem haldin verður í Lyon í Frakklandi árið 2027. Með henni til leiks er Marlís Jóna Karlsdóttir sem gegnir lykilhlutverki sem aðstoðarmaður og í fyrsta sinn í sögunni eru bæði keppandi og aðstoðarmaður konur í íslenska Bocuse d’Or teyminu.
Bocuse d’Or er ein virtasta og þekktasta matreiðslukeppni heims og hefur oft verið líkt við Ólympíuleika matreiðslunnar. Keppnin fer fram á tveggja ára fresti með undankeppni árið áður og sjálf lokakeppnin er haldin í Lyon í janúar. Fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999 þegar Sturla Birgisson náði fimmta sæti. Íslendingar hafa síðan þá alltaf verið í hópi tíu efstu þjóða og hafa Hákon Már Örvarsson árið 2001 og Viktor Örn Andrésson árið 2017 unnið til bronsverðlauna.

Marlís Jóna Karlsdóttir hafnaði í öðru sæti í keppninni Eftirréttur ársins 2025 og hlaut jafnframt nemaverðlaun Garra.
Mynd: úr einkasafni
Marlís Jóna Karlsdóttir er frá Siglufirði og segir að áhugi hennar á veitingageiranum hafi kviknað snemma, þó vegferðin inn í matreiðslufagið hafi þróast smám saman. Hún ólst upp á Siglufirði, flutti síðar til Akureyrar þar sem hún stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist árið 2023. Samhliða námi starfaði hún meðal annars sem þjónn og í fiskbúð og kynntist þannig vinnuumhverfi veitingageirans vel.
„Þegar ég flutti aftur á Siglufjörð í byrjun árs 2024 kviknaði áhuginn af fullum krafti og í dag bý ég í Reykjavík þar sem ég stunda nám í matreiðslu,“
segir Marlís í samtali við trolli.is.
Hún hóf nám í faginu haustið 2023 eftir að hafa starfað við eldamennsku í hádegishlaðborði þar sem hún fann strax að þetta væri eitthvað sem hún vildi gera af alvöru. Hún fór á samning á Sigló Hótel áður en hún flutti suður, þar sem samningurinn var fluttur yfir á Grand Hótel. Þar hefur hún starfað innan Íslandshótela síðan. Áætlað er að Marlís ljúki námi vorið 2027, að lokinni þátttöku í Bocuse d’Or verkefninu.
Hún segir að fjölmargir hafi haft áhrif á sig í faginu.
„Ég er heppin að fá að vinna með fólki sem ég lít upp til, meðal annars Snædísi, Bocuse d’Or teyminu og meðlimum í íslenska kokkalandsliðinu.“
Aðkoma Marlísar að Bocuse d’Or verkefninu hófst þegar Snædís bauð henni að vera með.
„Þetta er stórt verkefni og mikill heiður að fá að taka þátt í stærstu og virtustu matreiðslukeppni heims,“
segir hún.

Æfingaaðstaða Marlísar er sérhannað eldhús í Fastus við Höfðabakka 7 sem er nákvæmlega uppsett eins og keppnisaðstaða Bocuse d’Or. Hún æfir alla daga nema sunnudaga og hver æfing stendur yfir í átta til sextán klukkustundir.
Mynd: Þráinn Freyr Vigfússon
Hlutverk hennar sem aðstoðarmanns er umfangsmikið og krefjandi. Hún vinnur náið með Snædísi í allri undirbúningsvinnu og þær munu keppa saman í búrinu í Marseille, með Lyon að lokamarkmiði. Æfingar standa sex daga í viku og lögð er mikil áhersla á að allt gangi snurðulaust, bæði í eldhúsinu og innan teymisins.
„Enginn dagur er eins, en það er alltaf gaman hjá teyminu,“
segir Marlís.
Að hennar mati skiptir teymisvinnan öllu máli. Hún segir vinnuferlið hefjast á hugmyndavinnu sem síðan er prófuð, endurunnin og þróuð áfram með aðstoð annarra kokka sem koma í smakk og gefa ábendingar.
„Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að halda áfram að prófa og betrumbæta réttina,“
segir hún.
Samstarf við þjálfara, dómara og fyrrverandi keppendur skiptir einnig miklu máli.
„Liðsheildin er eitt af því mikilvægasta í þessu ferli. Allir stefna að sama markmiði, að koma Íslandi sem lengst og helst á verðlaunapall,“
segir Marlís og bætir við að fyrri keppendur séu reglulega kallaðir til í smakk og ráðgjöf.
Sú staðreynd að í fyrsta sinn séu tvær konur í lykilhlutverkum í íslenska Bocuse d’Or teyminu skiptir hana miklu máli.
„Ég er mjög stolt að vera hluti af fyrsta íslenska kvennateyminu og vona að þetta opni dyr fyrir fleiri konur sem hafa áhuga á keppninni,“
segir hún.

Marlís keppti í Norrænu nemakeppninni ásamt Sindra Hrafni Rúnarssyni sem haldin var í Silkeborg í Danmörku í apríl 2025.
Mynd: úr einkasafni.
Aðspurð um ábyrgðina sem fylgir því að standa fyrir hönd Íslands á þessum vettvangi segir Marlís verkefnið vera einstakt tækifæri.
„Þetta mun klárlega nýtast mér vel í framtíðinni. Við erum að æfa af fullum krafti og það mun skila sér þegar að keppnisdegi kemur.“
Ferðalagið hefur þegar kennt henni mikið. Hún segir ferlið bæði krefjandi og afar gefandi og að hún finni hvernig hún vex jafnt faglega sem persónulega.
„Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og það er ómetanlegt að fá að kynnast öllu fólkinu í kringum Bocuse d’Or.“
Að lokum hvetur hún ungt fólk sem dreymir um alþjóðlegan feril í matreiðslu til að láta slag standa.
„Byrja að læra og hafa gaman af því. Enginn dagur er eins, það er alltaf hægt að læra meira og kynnast nýju fólki.“




