Fyrst ég minnist á jarðgöng þá kemur upp í hugann mynd af því þegar við tókum okkur til nokkrir skátar sumarið 1964 og fórum aðfaranótt 17. júní á bíl eftir Almenningum, alla leið út að Sauðanesvita. Þá var verið að leggja veginn um Almenninga að væntanlegum Strákagöngum og stærstu og öflugustu jarðýtur landsins voru saman komnar til að ryðja þennan veg, meðal annars að fylla upp í Herkonugilið, sem var mesta ófæra á þessum slóðum, og tók langan tíma að gera þar fært, og einnig að moka sig upp eftir Mánárskriðunum og niður aftur inn í Engidalinn.
Siggi á Dalabæ mun hafa margsagt þessum vegagerðarmönnum að fara ekki upp skriðurnar, þar yrði endalaust grjóthrun og þetta fyllti af snjó hvenær sem gæfi ofan. Leggja veginn niðri á bökkunum því þar festi aldrei snjó. En verkfræðingarnir með reglustikurnar í Reykjavík hlustuðu ekki á gamlan bónda sem búið hafði í þessari einangrun áratugum saman og tóku skriðurnar – sem reyndust síðar stórhættulegur vegur vegna endalauss grjóthruns og þar skóf í slóðina í sérhverri norðanhríðinni og vegurinn var sífellt ófær af þeim sökum á vetrum. Þá tóku þeir til hendinni sérfæðingarnir að sunnan og færðu veginn niður á bakkana. Fer ekki sögum af því hvar þeir höfðu skottið.
Jón Dýrfjörð var í forystu fyrir okkur skátunum og hefur örugglega átt að minnsta kosti meginhlutan af þeirri hugmynd að fara á bíl út að Sauðanesi áður en vegurinn yrði lagður þangað. Og það gerðum við. Við fórum á bílum inn að Heljartröð og þaðan út undir Máná, eftir nýruddum vegi. Þaðan fórum við með Fiatinn hans Njarðar Jóhanns eftir ósléttum ruðningum í kjölfar stórvirkra jarðýtna, en þegar því sleppti fórum við um móa, brekkur og læki uns við komum heim á hlað á Sauðanesi og hittum þar Trausta, bónda og vitavörð, og alla hans fjölskyldu. Í leiðangrinum voru auk Njarðar og Jóns Dýrfjörð, Sigfús sonur hans, Jón Sig, Biggi Vilhelms, Ásgeir Jónasar, Jóhann Ágúst og ég.
Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð og viðburðarík, við þurftum að ganga með bílnum langleiðina og styðja við hann og ýta af og til, en hann fór þessa leið alla á hjólum, oft talsverðar krókaleiðir. Og fyrsti bíllinn sem kom akandi eftir Almenningum að Sauðanesi var F 261.
Um fyrstu bílkomu að Sauðanesi segir Stefán Friðbjarnarson fréttaritari Morgunblaðsins í frásögn frá 23. júní 1964:
Hinn fjórhjólaði farkostur nútímans, sem sífellt eykur áhrifasvæði sitt, kom þangað í fyrsta sinn aðfaranótt 17. júní sl. Það var söguleg stund er lítíll Fíat 600 bíll rann í hlaðið á Sauðanesi. Og vitavörðurinn, sem vakinn var af værum blundi kl. 3 að nóttu, hefur sennilega vart trúað eigin augum, er hann leit bíl í varpa, þann fyrsta sem sigraði Herkonugil, þann fyrsta sem ekur í hlað á Engidal, og átti aðeins eftir um 1 km leið að fyrirhuguðum jarðgöngum um fjallið Stráka (vestan megin).
Það voru siglfirzkir skátar, undir forystu Jóns Dýrfjörð, sem þessa leið óku. Lögðu þeir af stað skömmu fyrir miðnætti, í þann mund er 20. þjóðhátíðardagurinn rann upp, héldu sem leið liggur yfir Siglufjarðarskarð, ofan í Hraunadal. Á Heljartröð beygðu þeir til hægri, inn á hinn nýja þjóðveg, út Almenninga. Að sögn þeirra er sæmilega akfær vegur að Mána á Úlfsdal. Var síðan farið yfir mýrarnar hjá Dalabæ og þar upp á vegarruðninginn á ný. Ýmsar torfærur munu hafa orðið á vegi þeirra félaga, sem hér verður ekki um rætt að sinni, hitt skiptir mestu máli, að þeir eru hinir fyrstu, er aka bíl í Engidal, og mun þó margur Siglfirðingurinn hafa haft hug á því marki.
Við skildum Fiatinn eftir á hlaðinu á Sauðanesi og héldum til baka og komum heim undir morgun og bíllinn var sóttur síðar. Það var talsvert talað um þessa ferð okkar og margir trúðu tæplega frásögnum okkar og á kreiki voru sögur um að við hefðum borið bílinn alla leið. En það var auðvitað alls ekki rétt. Á hjólum fór hann.